fimmtudagurinn 3. janúar 2013

Áramót í Vesturbyggð

Síðastliðið ár hefur verið annasamt hér í Vesturbyggð. Verkefnin hafa verið fjölbreytt enda í mörg horn að líta í landmiklu sveitarfélagi.

Það voraði seint og snjóþyngsli voru töluverð fram eftir vetri. Haustið hefur hinsvegar verið gott og tíðin góð. Það er ekki fyrr en á síðustu dögum þessa árs að snjó tekur að kyngja niður og vetur konungur lætur okkur vita af tilvist sinni þannig að við gleymum honum ekki.

Samfélögin okkar hafa orðið fyrir miklum áföllum þetta árið. Það eru ávallt þung spor að fylgja vinum og góðum samborgurum til grafar og sérstaklega í litlum byggðum. Við minnumst látinna vina með virðingu og þökk um leið og við sendum ástvinum samúðarkveðjur.
-------

Ástæða er að nefna góðan árangur 10. bekkjar á samræmdum prófum í haust. Það er gleðilegt að börnin okkar sýni svo góðan árangur sem raun ber vitni. Undirbúningurinn verður þeim gott veganesti í framhaldsskóla og frekara nám í framtíðinni. Börnum hefur fjölgað töluvert bæði í grunnskóla og leikskóla samhliða íbúafjölgun. Nú eru krakkarnir 57 í leikskólunum og 105 í grunnskólanum.

Það er er ákaflega gleðilegt að íbúum hefur fjölgað umtalsvert síðustu tvö ár. Við vonumst til þess að sú þróun haldi áfram enda er atvinnuástand gott og fátt sem ætti að koma í veg fyrir að hægt sé að taka á móti fleira fólki hér á svæðið nema etv húsnæðisskortur. Nú eru íbúar skv. Þjóðskrá 933.
-------

Eftir ærlega tiltekt í rekstri sveitarfélagsins, endurfjármögnun óhagstæðra lána er reksturinn að komast á nokkuð gott ról. Mikið aðhald hefur verið í rekstrinum undanfarin ár og allir starfsmenn hafa lagst á eitt við að lækka kostnað en ekki síður auka tekjurnar en þær hafa farið fram úr björtustu vonum þetta árið. Því þökkum við fjölgun íbúa, auknum umsvifum í höfnunum og almennri aukinni veltu í samfélaginu sem er vel. Gott verð hefur verið á fiskmörkuðum, Ískalk hefur aukið útflutning sinn á kalkþörungum og starfsemi Fjarðalax hefur farið myndarlega af stað. Þá hefur samfélagið ekki farið varhluta af miklum framkvæmdum við hótelbyggingu á Patreksfirði og stækkun verksmiðju Ískalks á Bíldudal. Framkvæmdirnar hafa aukið veltu og umsvif í samfélaginu. Það eru hins vegar blikur á lofti sem rétt er að hafa áhyggjur af. Auðlindaskattur sem rífur í hjá útgerðunum, lækkandi fiskverð og kreppa í Evrópu sem hefur áhrif hér heima. Eins og á fyrri öldum er saltfiskurinn helsta útflutningsvaran og efnahagsástand á meginlandinu stýrir eftirspurninni.

Skuldir sveitarfélagsins hafa verið lækkaðar með stífum niðurgreiðslum og aðhaldi og ekki síst sölu íbúða. Nú hefur verið gengið frá sölu á fimm íbúðum í eigu Fasteigna Vesturbyggðar og í ferli er sala á fjórum íbúðum til viðbótar og hefur reksturinn gengið nokkuð vel. Mikill áhugi er á íbúðum í eigu FV og mun félagið reyna að selja eins margar íbúðir og frekast er unnt. Sala á þessum eignum hefur lækkað skuldir að nafnvirði um 50 milljónir sem er umtalsvert. En skuldir sveitarfélagins eru stærsta vandamálið sem og tilheyrandi fjármagnskostnaður sem hefur sligað reksturinn í gegnum tíðina. Heildarlækkun skulda á síðasta ári er um 100 milljónir sem teljast verður dágott. Skuldahlutfallið (heildarskuldir og skuldbindingar á móti tekjum) er áætlað að verði 157% í lok næsta árs en er nú um 173%.
-------

Rekstur vatnsveitu er eitt mikilvægasta verkefni hvers sveitarfélags. Miklar framkvæmdir hafa verið við vatnsveitur Vesturbyggðar undanfarið ár. Ástand vatnsveitu á Patreksfirði og Bíldudal er ekki gott og kallar það á endurnýjun lagna. Umtalsverðar skemmdir voru á lögnum á Vatneyri og inn á dal á Bíldudal en með síðustu aðgerðum ætti ástandið að vera komið í sæmilegt lag. Miklar framkvæmdir eru engu að síður fyrirhugaðar við veiturnar á næsta ári.

Talsvert hefur verið gert í umhverfismálum og viðhaldi eigna á líðandi ári og verður haldið áfram á næsta ári. Þær aðgerðir eru mikilvægar enda er verið með því að verja eignir sveitarfélagins. Raðhús á Patreksfirði var málað og íbúðir lagfærðar, en þær voru áður óíbúðarhæfar. Að loknum endurbótum íbúðanna voru þær settar í leigu. Unnið var að málun neðri skólans og verður þeirri vinnu lokið á komandi ári. Þá ber að nefna gangstéttagerð og viðgerð gatna bæði á Patreksfirði og Bíldudal. Áfram verður unnið að gerð gangstétta og viðhaldi gatnakerfisins næsta sumar. Gerður hefur verið samningur við Seeds sem eru alþjóðleg sjálfboðaliðasamtök um að senda 8 hópa hingað á næsta ári til þess að vera þjónustumiðstöðvum til aðstoðar og vinna að verkefnum í umhverfismálum.

Góður árangur hefur náðst í að lækka kostnað við hreinlætismál. En betur má ef duga skal. Íbúar þurfa að vera duglegri við að flokka sorpið. Þannig má lækka gjöldin ennfrekar.
---------

Síðastliðið haust var farið í að bora svokallaðar hitastigulsholur á Patreksfirði á vegum Vesturbyggðar og Orkubús Vestfjarða. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur stýrði þeirri vinnu. Frumniðurstöður borana er að uppstreymi heita vatnsins er á misgengi sem stefnir NA-SV og liggur um árfarveg Mikladalsár og vestan undir Geirseyrarmúla. Fullvíst er að þar er um 32°C heitt vatnskerfi á litlu dýpi. Ekki er hægt að spá eins og er um heitara og dýpra vatnskerfi, en nokkrar líkur eru til, að þar megi fá með djúpborun 40-45°C heitt vatn eins og efnainnihald vatnsins bendir til. Ekki verður hægt að meta hvort jarðhitinn sé nýtanlegur fyrr en lokaskýrsla jarðfræðinga liggur fyrir. Þetta verkefni er hins vegar mjög spennandi og áhugavert verður að sjá hvort hægt sé að nýta jarðhita á Patreksfirði og Arnarfirði í framtíðinni til þess að auka lífsgæði íbúa. Sligandi orkukostnaður á íbúa á köldum svæðum stendur allri framþróun fyrir þrifum enda hefur verið sýnt fram á að á fylgni er á milli efnahagslegra „kaldra svæða" og kaldra svæða í jarðhitalegum skilningi. Með samstarfi Vesturbyggðar og Orkubús Vestfjarða er leitast við að virkja jarðvarma í þeim tilgangi að bæta búsetuskilyrðin.
-----------

Vinna við deiliskipulag á Látrabjargi er í fullum gangi. Fyrir liggur skipulagslýsing fyrir svæðið sem er í auglýsingaferli. Næst verður að leggja fram skipulagsuppdrætti fyrir svæðið frá Breiðavík að Keflavík. Enn er stefnt að því að stofnaður verði þjóðgarður á Látrabjargi. Starfsmenn Umhverfisstofnunar voru í sumar þrír á sunnanverðum Vestfjörðum og einn starfsmaður er í fullu starfi og er hann með aðstöðu í Aðalstræti 75 á Patreksfirði.

Nýr starfsmaður kom til starfa við Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti sl. vor. Er það Heiðrún Inga Konráðsdóttir sagnfræðingur. Hún er búsett á Patreksfirði og vinnuaðstaða hennar er að Aðalstræti 75 á Patreksfirði og í Örlygshöfn. Miklar vonir eru bundnar við aukinn ferðamannastraum og þar með fjölgun gesta á safninu næstu ár.
-----------

Síðastliðið vor opnaði Matís útibú sitt á Patreksfirði. Höfðu bæjaryfirvöld og fyrirtækin á svæðinu forgöngu um að fá starfssemina hingað á svæðið. Áhersla verður á rannsóknir á laxeldisfóðri. Spennandi verður að sjá rannsóknir Matís og hvaða áhrif þær munu hafa á fiskeldi framtíðarinnar og hvernig rannsóknir og þróun geta leitt til lækkunar kostnaðar við fóður. Fóður er einn dýrasti þáttur við rekstur á fiskeldi og því fjölmörg tækifæri til auka framlegð í greininni með starfssemi þessari.
--------------

Framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Patreksfirði ofan við Patreksskóla og sjúkrahús munu hefjast á nýju ári. Þá er unnið að frumathugunum á ofanflóðavörnum í Litla-Dal á Patreksfirði og á Bíldudal ofan byggðar.
--------------

Íbúar sunnanverðra Vestfjarða fóru ekki varhluta af bilun Herjólfs nú í upphafi aðventu. Það var mikil mildi að ekki skullu á vetrarhörkur eins og nú hafa verið á meðan Baldur var í burtu. Fjarvera Herjólfs ítrekar enn mikilvægi þess að Eyjamenn fái nýja ferju sem hentar siglingum í Landeyjahöfn og að varaferja verður að vera til staðar á landinu til að bregðast við aðstæðum sem þessum á öllum ferjuleiðum. Þá ferju mætti einnig nýta yfir háönn þegar fjöldi ferðamanna er mikill og ferjur anna ekki eftirspurn.

Það er gleðilegt að sjá hversu vel framkvæmdir Vegagerðarinnar í Kjálkafirði og Mjóafirði ganga. Röskir verktakar hafa látið til sín taka og berum við þá von í brjósti að hægt verði að aka á bundnu slitlagi á haustdögum ársins 2013 um þessa firði og þá eru aðeins brýrnar sem þvera firðina eftir. Þetta er glæsileg vegagerð og þegar framkvæmdum verður lokið leyfi ég mér að fullyrða að fá vegstæði séu fallegri á landinu. Þessi mikla samgöngubót mun sannarlega hafa jákvæð áhrif á samfélögin á Vestfjörðum öllum. En þá er Gufudalssveitin eftir. Sá rembihnútur sem þar er mun varla leysast í bráð enda virðist lítill áhugi hjá stjórnvöldum til þess. Undirbúningur vegagerðar er á upphafsreit matslýsinga sem taka sinn tíma. Sú framvinda öll er nánast sorgleg í því ljósi að framkvæmdir höfðu verið undirbúnar og fjármagnaðar og gátu hafist fyrir mörgum árum en voru stöðvaðar eins og þekkt er.
------

Árið 2012 hefur verið ár endurskipulagningar og uppstokkunar í rekstri og fjármögnun hjá Vesturbyggð. Komandi ár verður ár framkvæmda hjá Vesturbyggð. Við erum samt hóflega bjartsýn með stöðuna á næsta ári og verkefnin framundan sem vissulega blasa víða við. Í því ljósi má minnast þess sem segir í málshættinum góða að „Kóngur vill sigla en byr mun ráða".
Ég bendi á stefnuræðu bæjarstjóra og fjárhagsáætlun ársins 2013 fyrir frekari upplýsingar um framkvæmdir og aðgerðir komandi árs.

 

Kæru íbúar!
Ég vil þakka ykkur fyrir samstarf og vináttu á árinu sem er að líða. Megi nýtt ár verða okkur öllum heilladrjúgt.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar

 
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is