Ásthildur Sturludóttir
Ásthildur Sturludóttir
Ræða Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra á hádegisverðarfundi, Félags viðskipta-og hagfræðinga sem haldinn var miðvikudaginn 18. apríl á Grand hótel. Aðrir frummælendur voru Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra, Illugi Gunnarsson alþingismaðurog Guðrún Lárusdóttir forstjóri Stálskipa. Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ var ásamt frummælendum í pallborði.

Fundarstjóri, ráðherra, alþingismenn, aðrir frummælendur, góðir fundarmenn!

Ég vil þakka það tækifæri að fá að tala a þessum fundi Félags viðskipta-og hagfræðinga hér í dag. Það er ákaflega mikilvægt að sjónarmið hinna dreifðu og viðkvæmu byggða í kringum landið komi fram þegar rætt er um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða enda er lífið saltfiskur í þorpum eins þar sem ég bý og þorpið- það fylgir þér alla leið eins og segir í ljóði Jóns úr Vör.

Vesturbyggð er staðsett fyrir þá sem ekki vita á sunnanverðum Vestfjörðum. Vesturbyggð markast af Breiðafirði, Látrabjargi, Arnarfirði og hálendi Vestfjarða. Þéttbýlisstaðirnir eru tveir, Patreksfjörður og Bíldudalur og talsverð byggð er í sveitunum í kring. Í Vesturbyggð búa 923 manns og hefur okkur fjölgað um 33 á einu og hálfu ári. Við teljum okkur vera að ná vopnum okkar á ný eftir margra ára fólksflótta. Samfélagið er að styrkjast; sjávarútvegurinn er að eflast, kalkþörunga-vinnsla orðin stóriðja og laxeldið ætlar að koma sterk inn. Vegakerfið hefur tekið breytingum sl. 15 ár en en enn er nokkur bið í að draumurinn um malbikið til Reykjavíkur rætist. Þessu fylgir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er að batna eftir áralanga rekstrarerfiðleika. Framtíðin í Vesturbyggð er björt og íbúar una glaðir við sitt.

Sjávarútvegur hefur alla tíð verið hryggjarstykkið í atvinnulífi sunnanverðra Vestfjarða. Rík saga útgerðar og verslunar einkennir svæðið. Á 19. öld sóttu franskir sjómenn þjónustu til Patreksfjarðar og í byrjun síðustu aldar hófst ævintýraleg uppbygging togaraútgerðar sem gerði þorpin að stórsamfélögum á landsvísu. Pétur Ólafsson og Ólafur Jóhannesson kaupmenn á Patreksfirði og Pétur Thorsteinsson á Bíldudal voru frumkvöðlar sem byggðu upp samfélögin. Þau spor sem þeir mörkuðu má enn sjá. Þorpin voru sjálfbær þegar kom að útgerð. Mikil þekking byggðist upp og menn kunnu til verka í vélsmiðjunni og var sagt að ef varahlutir fengjust ekki á Patreksfirði væru þeir ekki til í landinu.

 

Allt þetta byggðist upp í kringum sjávarútveginn sem enn í dag er höfuð-atvinnuvegurinn, það helgast af nálægðinni við miðin og þekkingu þeirra sem starfa við útgerð og vinnslu.

 

Í Vesturbyggð eru starfandi í dag tvö stór útgerðarfyrirtæki sem ráða yfir nokkuð miklum aflaheimildum, annað á Bíldudal og hitt á Patreksfirði, auk þess eru nokkur smærri en mikilvæg útgerðarfyrirtæki.

 

Oddi hf. útgerð og fiskvinnsla á Patreksfirði en það fyrirtæki og tengd fyrirtæki ráða yfir 3053 þorskígildum, gera út 3 báta og hjá þeim starfa 89 manns. Á Bíldudal er Arnfirðingur, fyrirtæki sem stofnað var seint á síðasta ári. Hjá þeim starfa 25 manns við veiðar og vinnslu og er sú starfsemi mikil innspýting inn í samfélagið. Þeir gera út 3 báta og ráða nú yfir 1000 tonnum af aflaheimildum sem er leigukvóti og ekki inn í tölum fyrir Vesturbyggð.
Að auki eru Útgerðarfélagið GEF og Útgerðarfélagið Krossi ehf eru með öfluga smábátaútgerð með 5 bátum og gera einnig út á grásleppuveiðar og eru með 12 manns í vinnu. Alls eru skráðir 42 bátar á Patreksfirði. Á Bíldudal eru skráðir 18 bátar sem gera út á handfæraveiðar og rækju. Á Barðaströnd eru skráðir 29 bátar en eigendur þeirra eru alls ekki allir skráðir til heimilis á svæðinu.

 

Hafnir eru á öllum þessum stöðum í eigu og rekstri Hafna Vesturbyggðar með tilheyrandi umsýslu.

 

Fiskveiðiárið 2011-2012 eru aflaheimildir í Vesturbyggð samtals 3327 þorskígildi.

 

Afleidd störf í kringum sjávarútveginn eru m.a. annars vélsmiðja með 15 starfsmenn og 60% af starfsemi hennar er í kringum sjávarútveg. Þá er bátaverkstæðið sem tekur að sér nýsmíði og viðgerðir á plastbátum, rafvirkjar og tölvufyrirtæki sem sérhæfa sig í tækjum og tólum fyrir vinnslur og báta. Auk þess þjóna verslanir og aðrir iðnaðarmenn útgerðinni. Í rannsókn Shirans Þórissonar framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða á atvinnulífi og sjávarútvegi á Vestfjörðum kemur fram að sjávarútvegurinn skapi beint 53% af tekjum Vestfjarða og greiði um 41% launa. Sú tala er líklega vanreiknuð fyrir sunnanverða Vestfirði.

 

Allt hagkerfi samfélagsins helst í hendur og snýst í kringum sjávarútveginn. Gangi vel hjá útgerðinni hagnast allir, búðin, hárgreiðslukonan og málarinn og þetta má ég segja af því að ég er kona og veit þetta: síðast en ekki síst er konan er lukkuleg, fer jafnvel í fjarnám í stað þess að flytja í burtu og fjölskyldan býr því áfram í litla bænum. Þetta er mjög vel þekkt saga í Vesturbyggð.

 

Þá má ekki gleyma öllum þeim opinberu starfsmönnum sem starfa beint við sjávarútveginn allt í kringum landið, útibú Fiskistofu, Hafró, fræðasetur og náttúru-stofur. Allt þetta er mikilvægt sjávarútveginum. Við gleymum því nefnilega oft að sjávarútvegurinn er einn helsti þekkingariðnaður þjóðarinnar. Í kringum útgerð og vinnslu starfar fólk með sérþekkingu, hvort sem það eru vélstjórar, skipstjórar, , viðskiptafræðingar eða doktorar í matvælafræði sem stýra fyrirtækjum, skipum og vinnslunni.

 

Það þarf ekki að fjölyrða um áhrif nýs frumvarps um stjórn fiskveiða á samfélag eins og Vesturbyggð.

 

Í úttekt sem KPMG vann fyrir sveitarfélagið á áhrif umrædds frumvarpsins á Vesturbyggð, kemur fram að heildarhækkun veiðigjalds eru varlega áætluð í kringum 200 milljónir á fyrirtæki.

 

Þá er ekki tekið tillit til áhrifanna á Arnfirðing á Bíldudal en gera má ráð fyrir að það hækki töluna umtalsvert. Það er nokkuð ljóst að viðbrögð útgerðarinnar verða þau að lækka tekjur sjómanna og eða fækka starfsmönnum.

Í áðurnefndri rannsókn Shirans Þórissonar kemur í ljós að EBITDA sjávarútvegs-fyrirtækja á Vestfjörðum árið 2009 nægði ekki til að fyrirtækin gætu staðið við skuldbindingar sínar. Að því leiðir að að annaðhvort þarf ríkisbankinn Landsbankinn að breytast í Útvegsbanka og meiriháttar afskriftir þurfa að fara fram eða fjöldagjaldþrot blasir við í greininni á Vestfjörðum og þá væntanlega líka annarsstaðar.

 

Og hvað gerist þá á landsbyggðinni? Eignaupptaka, ekki bara í sjávarútvegi heldur falla fasteignir fólks í verði og þar með lífeyrir þeirra. Fólksflótti og þeir sem eftir eru hafa ekki bolmagn til þess að halda uppi grunnþjónustu á svæðinu.

 

Ef við horfum á þetta út frá skatttekjum í Vesturbyggð þá er það dagsljóst að aukið veiðigjald mun lækka skatttekjurnar umtalsvert sem voru á síðasta ári 308 milljónir króna.

 

KPMG metur það svo að útsvarstekjurnar muni lækka um 9 til 12 milljónir króna vegna uppsagna. Þetta er mjög varlega áætlað og kann að vera mun meira.

 

Veiðigjaldið skv. nýju lögunum samsvarar 65% af skatttekjum Vesturbyggðar.

 

Hvað finnst fólki um þetta?

 

Þá kann svo að fara að veiðigjaldið verði hærra en útsvarstekjurnar í Vesturbyggð, sérstaklega þegar aflaheimildirnar fara að skerðast ár frá ári. Það eru peningar sem sogast burt úr Þorpunum, til Reykjavíkur, inn í hið miðstýrða kerfi og týnast þar. Þetta eru hreinir fjármagnsflutningar frá sveitarfélögum til ríkisins. Þessir fjármunir gætu byggt upp öflugri fyrirtæki og skapað fleiri tækifæri til verðmætasköpunar og ekki síst lagt grunninn að öflugu samfélagi ef þeir fengju að vera áfram í heimabyggð. Það er ekki sjálfsagt að sjómenn séu í veri vestur á fjörðum til þess að tryggja framfærslu hinna skapandi greina, líkt og biskupsstólarnir til forna höfðu það í Dritvík, þar sem í dag er daufleg vist.

 

Finnst stjórnmálamönnum þetta virkilega rétt þróun? Eruð þið að reyna að búa til myndina af þorpinu sem Bubbi syngur um? Það þorp eru ekki Patreksfjörður og Bíldudalur dagsins í dag og eru ekki þau þorp sem við viljum.

 

Það er nokkuð öruggt að þetta veiðigjald fer ekki í nýja vegi eða göng þegar lýsingin á þorpinu hans Bubba verður að veruleika.

 

Lítum á dæmi, máli mínu til stuðnings. Það er Oddi hf. útgerð og fiskvinnsla á Patreksfirði, fjölskyldufyrirtæki sem er 45 ára gamalt. Það hafa hins vegar ekki alltaf verið jólin í þeirri útgerð. Oddi hf. er með sæmilega öfluga kvótastöðu. Fyrirtækið keypti árið 2007 aflaheimildir sem voru til sölu á Patreksfirði svo þær héldust í heimabyggð. Verðmiðinn var milljarður. Tæpri viku síðar varð kvótaskerðing og hún nam eiginlega því magni sem Oddi keypti af kvóta. Áhættan í rekstrinum hefur því verið mikil, sérstaklega þegar horft er til ákvarðana ríkisvaldsins.

 

Vegna fjárfestinga í aflaheimildum, tækjum og tólum til að auka hagkvæmni í rekstri er fyrirtækið mjög skuldsett. En skuldirnar helgast ekki af fjárfestingum í ótengdum verkefnum eins og er fullyrt að sjávarútvegurinn stundi.

 

Ef Oddi greiðir 70% af EBITU sinni í skatt eða svonefnt veiðigjald mun það leiða fyrirtækið í gjaldþrot á mjög stuttum tíma nema til komi miklar afskriftir á lánum, þrátt fyrir mikið aðhald í rekstri. Fyrirtæki eins og Oddi sem er hryggjarstykkið í samfélaginu mun ekki standa undir 170 milljóna auknum álögum eins og reiknað hefur verið að falli á fyrirtækið. Það gengur bara ekki upp.

 

Starfsmenn Odda og tengdra fyrirtækja greiddu í fyrra 155 milljónir í skatta, þar af fóru 61 milljónir í útsvar sem er 20% af heildarútsvarinu og fyrirtækið greiddi 22 milljónir í hafnargjöld og bryggjugjöld til Vesturbyggðar sem er 60% af heildarhafnargjöldunum. Með verri afkomu fyrirtækisins fer keðjan af stað: lækkandi laun, versnandi afkoma annarra fyrirtækja í þjónustu,uppsagnir, lakari staða sveitarfélagsins og fólksflótti. Það eru því miður ekki önnur tækifæri í Vesturbyggð.
Íbúar í Vesturbyggð kynntust þessu mynstri allt of vel á eigin skinni á árunum í kringum 1989. Samfélagið á Patreksfirði leysist nánast upp vegna gjaldþrota fyrirtækja í sjávarútvegi og þjónustu í kringum sjávarútveg. Patreksfirðingar misstu þá á einu bretti 75% af aflaheimildum sínum þegar tveir bátar voru seldir í burtu og tvær vinnslur fóru á hausinn. Þá kom sér vel að Patrekshreppur stóð vel og skuldaði lítið og gat brugðist við og tekið þátt í atvinnuuppbyggingu með því að leggja inn fjármagn í Odda hf. sem keypti húsnæði annarar vinnslunnar. Þau hlutabréf voru síðar seld með hagnaði. Við þetta misstu um 20 fjölskyldur lífsviðurværi sitt og íbúum fækkaði um 40 milli ára.

 

Bíldudals- og Barðastrandarhreppur hinir fornu tóku einni þátt í atvinnuuppbyggingu með svipuðum hætti. Vesturbyggð sýpur enn seyðið af þeim björgunaraðgerðum og ekki síður tapi samfélaganna og áfalli íbúanna við slík gjaldþrot. Bæjarsjóður skuldar hátt í 80 milljónir í dag út af þessum fyrirtækjum, ríflega 25 árum seinna.

 

Þessi fyrirtæki fóru ekki á hausinn vegna kvótakerfisins heldur vegna vandræða í rekstri og óhagkvæmni í útgerð.

 

Í dag gæti sveitarfélagið engan veginn komið að atvinnurekstri enda er það ekki hlutverk sveitarfélagsins og þeim það ekki heimilt. Hlutverk þess er að bjóða umhverfi sem er fyrirtækjunum hagstætt. Hafnir Vesturbyggðar hafa undanfarin ár staðið í miklum risaframkvæmdum á landsvísu á Patreksfirði og Bíldudal. Vegna mikilla umsvifa í sjávarútvegi og útflutningi á kalkþörungum var farið í miklar umbætur á höfnunum. Beinar tekjur af höfninni eru rúmar 60 milljónir og megnið af þeim kemur frá útgerðinni. Restin kemur frá vinnslu og útflutningi kalkþörunga og laxeldi á svæðinu. Með lækkandi tekjum af útgerðinni mun afkoma hafnarsjóðs versna umtalsvert. Þær framkvæmdir sem farið var út á grundvelli stöðunnar sl. ár munu verða byrði á hafnarsjóði ef miklar breytingar verða á stjórn fiskveiða.

 

Ein af þeim mótvægisaðgerðum sem eru settar fram í nýju lagafrumvarpi eru þær tekjur sem koma í hlut sveitarfélagsins í gegnum útleigu veiðiheimilda.

 

Sú tillaga eru bara hyllingar.

 

Þessar tekjur munu alls ekki vega upp á móti þeim töpuðu tekjum sveitarfélaganna. KPMG metur það svo að 3,5-18,5 milljónir komi í hlut Vesturbyggðar. Að segja að þessi mótvægisaðgerð komi í stað þeirra tekna sem samfélögin verða af við kerfisbreytinguna er í besta falli vond stærðfræði þeirra sem sömdu lagafrumvarpið.


Góðir fundarmenn!

 

Ef við drögum þetta saman þá er niðurstaðan einfaldlega sú að þessi umbylting á lögum um stjórn fiskveiða gengur hreinlega ekki upp. Skattpíning á grundvallar atvinnugrein þjóðarinnar og þar með samfélögunum allt í kringum landið leiðir til ekki til annars en hruns landsbyggðarinnar sem aftur veldur byggðaröskun og fólksflótta.

 

Á nýr skattur etv að leggja drög að skapandi störfum fyrir allt landsbyggðarfólkið sem flýr undan eignaupptöku og atvinnuleysi til höfuðborgarsvæðisins?

 

Við þá sem halda því fram að hér kalli hver í kapp við annan „úlfur úlfur" segi ég:

 

Kynnið ykkur málin betur hjá samfélögunum allt í kringum landið, lesið útreikninga sveitarfélaga, óháðra úttektaraðila og endurskoðendafyrirtækja. Þær niðurstöður eru ekki keyptar.

 

En þær niðurstöður ættu að vera stjórnvöldum varnaðarorð og koma í veg fyrir að tekin verði ákvörðun um að fara í einhverja verstu byggðaaðgerð sögunnar.

 

Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is