Frumvarp að fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2014 er hér lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Er þetta síðasta áætlun kjörtímabilsins. Síðasta ár hefur verið ár viðsnúnings í rekstri og fólksfjölgunar, nýrra tækifæra og bjartsýni. Miklar vonir eru bundnar við uppbyggingu í laxeldi og kalkþörungavinnslu sem og ferðaþjónustu en þar eru spennandi tímar framundan. Við leyfum okkur hins vegar ekki að vera bjartsýn í áætlunargerðinni enda gerir hún ekki ráð fyrir fjölgun íbúa heldur status quo. Fjölgun og útsvarshækkun verður því hrein viðbót við tekjur sveitarfélagsins.

Fjárhagur sveitarfélagsins er samt sem áður enn þungur enda verkefnin mörg, þjónustan mikil en íbúar fáir. Gert er ráð fyrir launahækkunum á næsta ári sem er mikill óvissuþáttur í áætlun þessari enda ógjörningur að spá til um hvernig sú þróun verður. Samningar eru lausir um áramót og er víst að mikil átök verða á vinnumarkaði.

Sveitarfélög hafa verið hvött til þess að gæta hófs í gjaldskrárhækkunum og gerir Vesturbyggð ekki ráð fyrir miklum hækkunum á gjaldskrám sínum, amk eiga þær ekki að bitna á öldruðum og barnafjölskyldum. Umhverfisgjöld og sorpeyðingargjöld hækka t.d. ekki og álagningarhlutfall á fasteignagjöld er óbreytt en rétt er að taka fram að fasteignagjöld hækka milli ára vegna hækkandi fasteignamats í sveitarfélaginu en ekki vegna aðgerða sveitarfélagsins. Eignir hækka í verði og það endurspeglast í hækkuðu fasteignamati. Leikskólagjöld, matargjald á leikskóla hækka um 2,5% sem er nauðsynlegt vegna endurbóta á leikskólanum og mikilla hækkana á matarverði. Hækkun á skólamáltíðum hækka um 2,5% sem er vegna hækkana á matarverði. Gjaldskrá Tónlistarskóla verður breytt og lækkuð. Hækkunin er undir verðbólguspám og breytingin á gjaldskrám er því í raun og veru lækkun frá fyrra ári á stærstu gjaldskrárliðum er snerta heimilin og þannig í takti við vilja verkalýðshreyfingarinnar til þess að spyrna við verðbólgu. Rétt er að benda á að Vesturbyggð býður upp á ríflega afslætti fyrir barnmargar fjölskyldur.

Nokkrar lykiltölur fyrir árið:

 • Reksturinn fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 77  milljónir. Var 42 milljónir í fjárhagsáætlun 2013.
 • Fjármagnsliðir eru 75 milljónir en voru 85 milljónir í áætlun 2013.
 • Rekstrarniðurstaðan er jákvæð um 1,3 milljónir en var neikvæð um 42 milljónir í fjárhagsáætlun 2013.
 • Veltufé frá rekstri er áætlað 85 milljónir kr. en var 59 milljón kr. í fjárhagsáætlun 2013.
 • Gert er ráð fyrir 5% hækkun verðlags milli fjárhagsára. 
 • Gert er ráð fyrir nýjum lántökum upp á 103,5 milljónir en afborganir langtímalána eru áætlaðar 129,5 milljónir. Gert er því ráð fyrir lækkun á heildarlánum sveitarfélagsins.

 

Ég vil nota tækifærið og þakka bæjarstjórn Vesturbyggðar og fagnefndum fyrir þá miklu vinnu sem þau hafa lagt á sig við fjárhagsáætlunargerðina en ekki síður skrifstofustjóra fyrir sína vinnu auk annarra starfsmanna sem með óbeinum hætti koma að vinnslu áætlunar.

Í dag eru langtímaskuldir sveitarfélagsins Vesturbyggðar um 1.031 milljónir sem er enn of há fjárhæð þrátt fyrir mikla lækkun. Áætlað skuldahlutfall á næsta ári verður 129,3% en er 121,2% nú. Leyfilegt skuldahlutfall skv nýjum sveitarstjórnarlögum er 150%. Árangurinn er því góður en í áætlun fyrra árs var gert ráð fyrir að þetta takmark myndi nást innan tveggja ára. Fjármagnsgjöld eru áætluð um 75 milljónir á næsta ári sem er töluverð lækkun frá síðasta ári. Á líðandi ári hafa útsvarstekjur verið aðeins hærri en gert var ráð fyrir og er það vel. En við þokumst þó upp á við og rétt er að taka það fram að íbúum hefur fjölgað töluvert á þessu ári og eru nú 950 sem er ánæguefni.

 

Skatttekjur

Tekjur samstæðunnar Vesturbyggðar skv. tekjustofnalögum eru áætlaðar 844 milljónir á næsta ári sem er umtalsverð hækkun frá áætlun þessa árs. Eru það nokkuð raunhæfar tölur sem spáð er í út frá stöðunni eins og hún er í dag og samkvæmt álagningu fasteignagjalda.

Útsvar

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að útsvarstekjur sveitarfélagsins verði 428 milljónir sem er þó nokkur hækkun frá síðasta ári vegna íbúafjölgunar. Útsvarsálagning er fullnýtt eða 14,48%.

 

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Reiknað er með að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði 229 milljónir kr., sem er ívið hærri tala en áætlað var fyrir þetta ár.

 

Fasteignaskattur

Álagningarstuðlar fasteignagjalda eru óbreyttir milli ára. Fasteignaskattur er áætlaður 43 milljónir króna sem er talsverð hækkun frá fyrra ári enda hefur fasteignamat hækkað örlítið. Fasteignamat í Vesturbyggð er þó enn eitt það lægsta á landinu. Lóðaleiga er áætluð 15,7 milljónir.

 • Fasteignaskattur á almennt húsnæði verður 0,525% sem er óbreytt frá fyrra ári.
 • Fasteignaskattur á:

o    opinberar stofnanir: 1,32 % eða óbreytt milli ára.

o    atvinnuhúsnæði: 1,65% eða óbreytt á milli ára.

 • Vatnsgjald hækkar tímabundið til að mæta auknum framkvæmdum og verður:

o    Íbúðarhúsnæði: 0,45%.

o    Atvinnuhúsnæði: 0,55%.

 • Holræsagjöld hækka og verða 0,33% vegna aukinna framkvæmda.

 

Veittur er 100 % afsláttur af fasteignaskatti til eldri borgara og örorkulífeyrisþega:

 • Einstaklingar með árstekjur allt að 2.719 þús. kr.
 • Hjón með árstekjur allt að 3.775 þús. kr.

Auk þess verður 70% afsláttur veittur:

 • Til einstaklinga með tekjur frá 2.720-3.429 þús. kr.
 • Til hjóna með tekjur frá 3.776 þús. kr.-4.803 þús. kr.

Sérstakar reglur gilda um fasteignagjöld vegna menningar, björgunar og íþróttastarfsemi.

Útgjaldaliðir

02 Félagsþjónusta

Félagsþjónustan hefur verið sameiginleg með Tálknafjarðarhreppi sl. ár og hefur það gengið vel.

Útgjöld til félagsþjónustu í Vesturbyggð hafa verið tiltölulega lítil á landsvísu en á síðustu árum hefur verið talsverð aukning á fjárhagslegri aðstoð sem er ákveðið áhyggjuefni. Útgjöld til félagsþjónustunnar eru áætluð 49,5 milljónir á næsta ári. Ef ekki verða miklar breytingar almennt í samfélaginu má gera ráð fyrir að þessi liður geti vaxið þrátt fyrir gott atvinnuástand hér í Vesturbyggð.

 

Nokkrar breytingar hafa verið á þjónustu við aldraða og hún aukin til muna og var sérstakur starfsmaður ráðinn á síðasta ári til þess að halda utan um þjónustuna. Þá er unnið að samvinnu sveitarfélaganna og HSP í þjónustu við aldraða. Mikill vilji er hjá sveitarfélaginu á samþættingu öldrunarþjónustu í Vesturbyggð enda yrði það mikið framfaraskref í þjónustu við eldri borgara að samþætta þjónustu sem er lögbundin hjá ríki við þjónustu sem sveitarfélögin veita öldruðum. Samhliða þessu hefur sveitarfélagið í kjölfarið á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar óskað eftir viðræðum við Heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði. Hugsunin er að skapa frið um stofnunina og koma í veg fyrir að hún verði sameinuð Hvest. Sveitarfélagið sér fyrir sér að hægt verði að samþætta þjónustu betur og þar með bæta þjónustuna. Í kjölfarið á frestun sameininga heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sér sveitarfélagið möguleika á því að vinna frekar að þessari tillögu sinni. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að auka enn frekar á þjónustuna til eldri borgara, lengja opnunartíma í Selinu og á Læk, bæta við þjónustu sjúkraþjálfara í Selinu og á Læk. Gjald á heimsendan mat hækkar ekki.

 

04 Fræðslu- og uppeldismál

Fræðslu-og uppeldismál er útgjaldafrekasti málaflokkur allra sveitarfélaga og eru þau flest að skoða hvernig megi draga úr kostnaði en jafnframt að viðhalda gæðum þjónustunnar. Bæjarstjórn leggur ríka áherslu á að efla allt það starfs sem lýtur að fræðslumálum. Vinna á Skólastefnu Vesturbyggðar á árinu sem er eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga. Sú vinna fer af stað strax á nýju ári og hefur Ingvar Sigurbjörnsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands verið fenginn til þess að leiða þá vinnu.

Það er mikilvægt að byggja upp sterkt skólastarf í samfélaginu okkar enda er skólinn grunnurinn og samstarf heimili og skóla því eitt af lykilatriðum þess að hér verði til sterkt samfélag. Það er ekki boðlegt að á skólar á Vestfjörðum séu alltaf meðal þeirra lægstu þegar kemur að samræmdum prófum og PISA könnunarprófum. Þetta er málefni sem allir íbúar verða að taka föstum tökum.

Stærstu fjárfestinga og viðhaldsverkefni ársins verða í skólum Vesturbyggðar.

Vesturbyggð mun áfram styðja við bakið á þeim starfsmönnum sem ætla sér að ná í kennararéttindi (BEd) og þeir starfsmenn sem ekki eru með háskólapróf munu eiga þess kost á að sækja námskeið til þess að efla þekkingu sína. Það er mikilvægt fyrir skóla Vesturbyggðar að fá fagmenntaða einstaklinga til starfa, það styrkir skólastarfið. Það er einnig nauðsynlegt að byggja upp metnað í samfélaginu, að íbúar hafi meiri metnað fyrir góðri menntun og þar með góðum skólum. Fylgnin milli gæða skólastarfs og fjármagnsins sem til þess rennur fylgist ekki alltaf að, þó svo að vissulega ætti það að skipta máli. Gæðin felast í starfinu og mannauðnum. Það skiptir máli að hafa vel menntað starfsfólk og þess vegna styður bæjarstjórn Vesturbyggðar við menntun starfsmanna. Hækkunum er stillt í hóf og eru minni en almennar verðlagshækkanir og eru leikskólagjöld í Vesturbyggð ekki há í samanburði við önnur sveitarfélög. Afsláttarkjör eru rífleg og eru samræmd milli skólastiga sem á að létta undir með barnmörgum fjölskyldum.

Heildarútgjöld til fræðslumála eru áætlaðar 296 milljónir og eru fræðslumál lang útgjaldafrekasti málaflokkur Vesturbyggðar.

 

Grunnskóli Vesturbyggðar

Gert er ráð fyrir töluverðum viðbótum við kennslutæki og húsgögn endurnýjuð. Keyptar verða nýjar tölvur fyrir kennara og nemendur. Töluvert viðhald er áætlað í Patreksskóla og Bíldudalsskóla á árinu sem er löngu tímabært. Gert er ráð fyrir áframhaldandi lengdri viðveru í Patreksskóla og sama fyrirkomulagi á mötuneyti og verið hefur. Mötuneytisgjald hækkar um 2,5%. Afsláttarkjör leikskóla og lengdrar viðveru eru samþætt og er það gert til að styðja við barnafjölskyldur.

 

Tónlistarskóli Vesturbyggðar

Gjaldskrá Tónlistarskólans verður breytt og lækkuð á komandi ári. Boðið verður upp á gjaldfrjálst nám í forskóla fyrir 6 ára börn. Hægt verður að greiða tónlistarskólagjöld mánaðarlega í stað eingreiðslu fyrir hvert misseri.

 

Leikskólar Vesturbyggðar

Það ánægjulega hefur gerst að talsverð fjölgun hefur orðið á leikskólum Vesturbyggðar. Gjaldskrárhækkanir í leikskóla verða 2,5 % en rétt er að taka fram að þær hafa ekki hækkað í þrjú ár í Vesturbyggð. Hækkanirnar eru nauðsynlegar vegna hækkandi launa, matarverðs og almenns verðlags. Húsnæði verður bætt á báðum stöðum og aðstaða og tækjakostur starfsmanna og leikskólabarna lagaður að nútímanum. Stærstu fjárfestinga-og viðhaldsverkefni ársins hjá sveitarfélaginu eru framkvæmdir við húsnæði og útisvæði Arakletts sem löngu var orðið tímbært. Þessar framkvæmdir eru þegar hafnar.

 

05 Menningarmál

Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á rekstri bókasafna á Patreksfirði og Bíldudal. Gert er ráð fyrir 5% hækkun á gjaldskrá milli ára. Heildarútgjöld til menningarmála verða tæpar 26 milljónir króna.

Skjaldborgarbíóið er þáttur í menningarlífi sveitarfélagsins. Lionsmenn og áhugasamir einstaklingar hafa sýnt bíóinu mikinn stuðning og velvilja sem ber að þakka. Ekki verða gerðar breytingar á þeim rekstri á komandi ári.

Mikilvægt er að ná rekstrargrundvelli Minjasafnsins á Hnjóti á réttan kjöl en vandinn hefur verið umtalsverður undanfarin ár. Framlag Vesturbyggðar er því hækkað í 8,5 milljónir króna á næsta ári sem er umtalsverð hækkun en það framlag dugar samt hvergi nærri til. Mikið og kostnaðarsamt viðhald á safnahúsinu er afar brýnt sem og á Miðgarði, koma þarf upp viðunandi geymsluhúsnæði sem er samþykkt af safnayfirvöldum. Fjárframlög hins opinbera hafa lækkað og á sama tíma eru miklar kröfur gerðar til safna um að uppfylla allar öryggiskröfur sem gerðar eru. Eru þessar kröfur að sliga mörg söfn á landsbyggðinni. Sveitarfélögin þurfa því sem allra fyrst að huga að framtíðarsýn fyrir safnið og hvert skal stefna.  

 

06 Æskulýðs- og íþróttamál

Æskulýðs-og íþróttamál er annar stærsti málaflokkur sveitarfélagsins. Heildarútgjöld þess málaflokks eru rúmar 100 milljónir kr. Undir málaflokkinn falla rekstur íþróttamiðstöðva og sundlauga, félagsmiðstöðvar, vinnuskóli og stuðningur við íþróttafélög í Vesturbyggð. Opnunartími Bröttuhlíðar breytist og lengist yfir sumartímann og gerðar verða breytingar á vetraropnunartíma sem taka gildi strax á nýju ári. Hækkun á gjaldskrá er 5% og er það í samræmi við önnur sveitarfélög. Fara á í brýnar endurbætur á húsnæðinu í samræmi við úttekt löggiltra matsmanna sem unnin var á árinu og er kostnaðarmat og hönnun er þegar hafin á vegum Verkís.

Stærsta nýja verkefni ársins er að stofnað verður sérstakt starf verkefnisstjóra í íþrótta-og æskulýðsmálum í Vestur-Barðastrandarsýslu og er það sameiginlegt verkefni Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.

Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á vinnuskólanum frá fyrra á ári.

Ekki er gert ráð fyrir breytingu á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Vest-end. Stutt verður áfram fjárhagslega við starf félagsmiðstöðvar á Bíldudal. Áfram verður stutt við íþróttafélögin.

 

07 Brunamál og almannavarnir

Síðustu ár hefur mikið og gott starf verið unnið hjá Brunavörnum Vesturbyggðar m.a. í markvissu fyrirbyggjandi starfi. Heildarútgjöld málaflokksins eru áætluð 18 milljónir kr. Lagt verður aukið fjármagn í búnaðarkaup eins og á fyrra ári. Áfram verður unnið við ofanflóðavarnir við Patreksskóla og HSP á Patreksfirði og hafist verður handa að vinna ofanflóavarnir við Litla-Dalsá. Þá verður Björgunarbátasjóður Barðastrandarsýslu styrktur um 200 þúsund til kaupa á Tetra símkerfi.

 

08 Hreinlætismál

Kostnaður við sorphirðingu og sorpförgun hefur farið vaxandi á undanförnum árum og var málaflokkurinn allt of dýr miðað við umfang. Miklar breytingar hafa verið gerðar sem hafa lækkað heildarkostnað málaflokksins sem er áætlaður jákvæður um rúma 1 milljónir kr. á þessu ári. Áfram þarf að vinna að flokkun og hvetja íbúa og fyrirtæki til þess að flokka sorp sitt betur. Gjaldskrá hækkar ekki.

 

09 Skipulags- og byggingamál

Mikil umsvif eru í skipulags-og byggingarmálum. Tekjur hafa að sama skapi aukist umtalsvert vegna framkvæmda í sveitarfélaginu sem er mjög ánægjulegt. Talsverður kostnaður liggur í skipulagsmálum enda eru mörg deiliskipulög í gangi sem kalla ýmsa sérfræðiaðstoð sem er kostnaðarsöm. Gert er ráð fyrir frekari fjárveitingum í skipulagningu, flokkun og innskönnun teikninga. Gjaldskrá hækkar um 5%.

Heildarkostnaður við málaflokkinn er 16 milljónir.

 

 

10 Umferðar- og samgöngumál

Viðhaldi gatna og gangstétta hefur verið haldið í algjöru lágmarki sl. áratugi. Mjög brýnt er að fara í viðhald á gatnakerfinu og er því gert ráð fyrir hækkun á útgjöldum til þessa málaflokks á árinu. Hér gildir einnig eins og annars staðar: forgangsröðun. Áfram á að steypa gangstéttir, laga göngustíga, holufylla og bæta hraðahindranir, gera við aðkomu að Skor, setja upp kantsteina á Eyrargötu, breyta aðkomu frá Strandgötu að Aðalstræti hjá FHP.

Heildarkostnaður við málaflokkinn er áætlaður 36 milljónir.

 

 

11    Umhverfismál

Mikil áhersla hefur verður lögð á umhverfismál og fegrun umhverfisins í sveitarfélaginu. Íbúar eru jafnframt hvattir til þess að huga að umhverfi sínu, görðum og húsum og sveitarfélagið mun leggja sitt af mörkum við að huga að umhverfinu. Ekki er gert ráð fyrir breytingum vegna grenjavinnslu nema breytingar verði á endurgreiðslum frá ríki.

Heildarkostnaður við málaflokkinn er 21 milljónir kr.

 

13 Atvinnumál

Framlög til atvinnumála lækka og verða 10 milljónir á næsta ári. Áfram verður stutt við ATVEST og fjármagn sett til verkefna til að sporna við atvinnuleysi. Þau verkefni verða unnin í samráði við Vinnumálastofnun. Áfram verður greitt til Markaðsstofu Vestfjarða. Haldið verður áfram að vinna við tjaldsvæðin á Bíldudal og Patreksfirði og komið verður upp rafmagnstenglum við Birkimel fyrir tjaldvagna. Tjaldsvæðin eru tekjuaukandi verkefni og mikilvægur þáttur í móttöku ferðamanna. Haldið verður áfram við að græða upp svæði við tjaldsvæðið á Bíldudal og Patreksfirði.

 

17 Félagsheimili

Enn og aftur er ástæða til að minna á mikilvægi þess að taka umræðu um starfsemi, eignarhald, fjárhagslega ábyrgð og verkefni félagsheimila í sveitarfélaginu. Það er óforsvaranlegt að sveitarfélagið eitt beri ábyrgð á rekstri félagsheimila í sveitarfélaginu þegar eignarhald er dreift. Þá er mikilvægt að kanna rekstrargrundvöll félagsheimilanna með markaðssetningu enda nauðsynlegt að fá meiri tekjur inn til þess að hægt verði að fara í viðhaldsverkefni sem löngu er kominn tími á. Þrátt fyrir litla peningar voru all nokkrir fjármunir settir til viðhaldsverkefna á félagsheimilum í sveitarfélaginu á líðandi ári og áfram verður haldið við endurbætur á húsnæðunum sem þarfnast mikils viðhalds.

 

21 Sameiginlegur kostnaður

Sameiginlegur kostnaður mun hækka á árinu. Heildarkostnaður er áætlaður 98 milljónir kr en er áætlaður 92 milljónir kr í ár. Skýrist það einna helst af húsaleigu tveggja bæjarskrifstofa, reyndar koma húsaleigutekjur á móti, hárri innri leigu, hækkun á lífeyrisskuldbindingum, hækkunum á þjónustubúnaði og afnotagjöldum á tölvubúnaði og hækkun á sameiginlegum kostnaði sveitarfélaga á Vestfjörðum og kostnaði við sveitarstjórnarkosningar í vor.

Unnið hefur verið að því að gera á innheimtu skilvirkari og nútímalegri þannig að deildarstjórar gefi út reikninga sína sjálfir, beint og milliliðalaust, móttaka reikninga verði rafræn og þeir flokkist beint inn í bókhaldskerfi enda sífellt fleiri viðskiptavinir Vesturbyggðar sem bjóða upp á þennan möguleika. Er það kerfi að komast hægt og rólega í gagnið. Stefnt er að því að opna íbúagátt Vesturbyggðar á nýju ári en þar geta íbúar sótt upplýsingar um stöðu á reikningum, sent inn erindi, sótt eyðublöð og fleira er varðar samskipti við sveitarfélagið.

Vesturbyggð fékk styrk á líðandi ári frá Starfsmennt til þess að vinna fræðslugreiningu fyrir starfsmenn sem ekki eru faglærðir. Var Fræðslumiðstöð Vestfjarða fengin í verkefnið og vinnur nú niðurstöður á greiningunni og er gert ráð fyrir að vinna að eflingu þessara starfsmanna með námskeiðum, markvissri þjálfun og eftirfylgni. Allt er þetta gert til þess að efla starfsmennina og gera þá betri og samkeppnishæfari og ekki síst til þess að auka starfsáænægju. Á niðurskurðartímum hafa starfsmenn sýnt ótrúlega þolinmæði og trúnað og traust til vinnustaðarins síns en nú er rétt að þeir fái umbun fyrir erfiði sitt með þjálfun og eflingu frá sveitarfélaginu. Það mun vonandi skila sér margfalt til baka með bættri þjónustu og betri vinnubrögðum.

 

31 Eignasjóður

Gert er ráð fyrir að afkoma eignasjóðs verði jákvæð um rúmar 23 milljónir kr. Reynt verður að halda við eignum sveitarfélagsins af fremsta megni. Unnið hefur verið að forgangsröðun verkefna og eru tillögur í fjárhagsáætluninni unnar út frá þeirri úttekt og eru verkefni eignasjóðs tíunduð sérstaklega í sundurliðun sérgreinda verkefna í fjárhagsáætluninni. Gert er ráð fyrir 29 milljónum í viðhald og 35,7 milljónum í framkvæmdir á vegum eignasjóðs.

Gert er ráð fyrir eignasölu; íbúðir og annað húsnæði. Ágóði af eignasölu verður nýttur til að greiða niður skuldir. Selja á:

 1. Stekka 21, einbýlishús, Patreksfirði.
 2. Stekka 13, efri hæð, Patreksfirði.

 

41 Hafnarsjóður

Heildartekjur Hafnarsjóðs eru áætlaðar tæpar 77 milljónir kr. en gjöldin eru áætluð 76,5 milljónir kr og skýrist það einna helst af háum fjármagnskostnaði vegna nýlegra hafnarframkvæmda á Patreksfirði og Bíldudal. Tekjuáætlun hafnarsjóðs er varlega áætluð enda óvíst um umfang umsvifa Ískalk og Fjarðalax. Áfram verður hugað að viðhaldi, fjölgun viðleguplássa og undirbúning fyrir flotbryggjuframkvæmdir 2015, bættu umhverfi og umgengni á hafnarsvæðunum í tengslum við Bláfánaverkefnið sem Patrekshöfn vinnur eftir og stefnt er að Bíldudalshöfn fái flöggun á næsta ári. Gjaldskrár hækka um 5%.

 

 

 

 

 

43 Vatnsveita

Mikið viðhald hefur verið við Vatnsveitu Vesturbyggðar á síðasta ári sem halda á áfram. Á næsta ári eru fyrirhugaðar talsverðar framkvæmdir enda er lagnakerfið á Patreksfirði og Bíldudal orðið gamalt og úr sér gengið. Viðhaldsþörfin er mikil enda hefur kerfinu verið lítið sinnt í gegnum tíðina og kominn er tími á að endurnýja nánast allar lagnir nema þær sem þegar hafa verið endurnýjaðar. Til þess að hægt sé að mæta þessum auknu verkefnum var vatnsgjaldið hækkað tímabundið og verður sú hækkun áfram í ár.

Forstöðumaður tæknideildar og forstöðumenn þjónustumiðstöðva hafa unnið að því sl. 2 ár meðfram öðrum verkefnum að teikna upp lagnakerfi bæjarins. Upplýsingar sem eru ómetanlegar og hafa ekki legið fyrir nema í minni bæði núverandi og frv. starfsmanna Vesturbyggðar. Allar lagnir þ.e. vatns og fráveita, rafmagnslagnir og símalínur munu síðan verða aðgengilegar á gagnvirku korti á vefsíðu Vesturbyggðar. Það mun auðvelda verktökum og öðrum þeim sem þurfa að komast að lögnum við hús að átta sig á legu þeirra.

Tekjur eru áætlaðar um 25 milljónir en gert er ráð fyrir framkvæmdum og rekstri fyrir 24 milljónir.

Endurnýjaðar verða aðveituæðar á Patreksfirði og Bíldudal til þess að mæta aukinni vatnsþörf atvinnulífsins stöðunum. Niðurstaða ársins er ráðgerð að verði jákvæð um 700 þúsund.

 

49 Fráveita

Nokkur aukning verður á útgjöldum til fráveitu sem mætt verður með hækkun á fráveitugjaldi vegna mjög aðkallandi verkefna, s.s. nýjar frárennslislagnir í Strandgötu á Bíldudal, lengingu útrása á Patreksfirði. Gert er ráð fyrir tekjum upp á 13,6 milljónir en framkvæmdum og rekstri upp á 17,4 milljónir.

 

57 Fasteignir Vesturbyggðar

Loksins er ljós í afkomu Fasteigna Vesturbyggðar ehf. Er gert ráð fyrir tæplega 157 þúsund kr. hagnaði af rekstri félagsins. Tekjur eru áætlaðar 27 milljónir og gjöld 27 milljónir, þar af 17,2 milljónir í fjármagnsgjöld. Eins og áður hefur verið nefnt hafa viðræður staðið yfir við Íbúðalánasjóð sl. ár vegna þeirra lána sem hvíla á félaginu. Ekkert hefur gengið enda er úrræðaleysi sjóðsins gagnvart sveitarfélögum algjört og stefnuleysið líka.

Reynt hefur verið að sinna lágmarksviðhaldi til þess að koma íbúðum í leigu en fjármagnið er samt sem áður lítið sem ekkert. Seldar hafa verið allnokkrar íbúðir á árinu sem er jákvætt. Það hefur lækkað skuldir félagsins. Skuldir Fasteigna Vesturbyggðar við Íbúðalánasjóð eru nú 296 milljónir. Reynt verður að selja fleiri íbúðir á komandi ári en nú eru 30 íbúðir í eigu FV. Sérstaklega er gleðilegt að segja frá því að lyftan langþráða á Kambi er nú tilbúin til notkunar. Áfram verður unnið að viðhaldi húsanna. Verður nú hugað að efsta raðhúsinu sem er í mjög slæmu ástandi og á að endurnýja vatnslangir og gera við húsið að utan og mála það.

 

Fjárfestum í framtíðinni

Í þessari fjárhagsáætlun er umtalsverðum fjárhæðum varið í viðhaldsverkefni, mun meira en sl. ár. Með þessum aðgerðum er verið að verja eignir sveitarfélagsins, bæta vinnuaðstöðu starfsmanna og notenda þjónustu sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 76,5 milljón króna á næsta ári. Til samanburðar var gert ráð fyrir 19,5 milljónum í fjárhagsáætlun ársins 2013. Stærstu verkefnin eru viðgerð á Arakletti, uppbygging gangstétta og gatna, frágangur á bílaplönum og viðgerðir á Bröttuhlíð. Til viðbótar við þetta eru 72 milljónir settar í sérgreind verkefni sem fara eiga í viðhald á skólahúsnæðum, félagsheimilum og til þess að bæta þjónustu við aldraða og lengja opnunartíma í íþróttamiðstöðvum.

Við þessa áætlunargerð, líkt og allt þetta kjörtímabil, erum við mjög varfærin í tekjuflæðinu. Ekki eru byggðar skýjaborgir og tekjur sveitarfélagsins belgdar út. Raunsæi er leiðarljósið þessarar áætlunargerðar sem endurspeglast í mikilvægi þess að horfa til framtíðar. Engin ástæða er til að vera svartsýn en raunsæi er lykilatriði, líkt og undanfarin ár.

Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á að gera Vesturbyggð að sjálfbæru samfélagi í fjárhagslegu tilliti. Segja má að sveitarfélagið sé orðið sjálfbært enda er gert ráð fyrir að bæði A og B hluti Vesturbyggðar verði rekin með hagnaði-eða á pari. Við verðum að geta byggt upp öflugan fjárhag til þess að geta brugðist við öllum þeim verkefnum sem fyrir liggja vegna atvinnuuppbyggingar. Auknar tekjur, skuldalækkun og fjölgun íbúa gefur tilefni til bjartsýni í sveitarfélaginu en við þurfum alltaf að vera á tánum varðandi íbúa-og tekjuþróun.

 

Spár þessa árs gera ráð fyrir að sveitarfélagið verði rekið með hagnaði á þessu ári. Er það þvert á áætlun ársins þar sem gert var ráð fyrir umtalsverðu tapi. Frumvarp til fjárhagsáætlunar 2014 sýnir ennfremur jákvæða afkomu. Í 4ja ára áætlun er gert ráð fyrir að sveitarfélagið nái að uppfylla fjármálareglur sveitarfélaga sem gera ráð fyrir að samanlögð afkoma sveitarfélags verði að vera jákvæð á 3ja ára tímabili. Sveitarfélagið er því á réttri leið að settu markmiði draumasveitarfélagsins um fjárhagslegt heilbrigði og svigrúm til fjárfestinga, viðhalds og lækkunar á gjaldskrám.

 

Lokaorð

Þetta kjörtímabil er senn á enda. Ég vil þakka bæjarstjórninni allri fyrir frábært samstarf og þann kjark sem hún hefur sýnt í erfiðum málum. Bæjarstjórnin hefur verið samhent um að mæta þeim verkefnum sem vinna þarf að allt þetta kjörtímabil og allt samstarf verið mjög þroskað. Vesturbyggð er nú orðinn eftirsóknarverður búsetukostur og fyrirtæki sjá hér gott starfsumhverfi. Tækifærin felast í þeim atvinnugreinum sem eru nú þegar til staðar og í vaxandi tækifærum í ferðaþjónustu, atvinnugrein sem er að ná fótfestu á svæðinu. Það ríður á að undirbúningur allur verði vandaður, hvort sem um er að ræða skipulag og umhverfismál að hálfu sveitarfélagsins eða viðskiptaáætlanir fyrirtækja. Hér eru góðir skólar, góð þjónusta við íbúa, gjaldskrár viðráðanlegar, mikill félagsauður og hér býr gott fólk.

 

Kæru íbúar!

Við erum bjartsýn. Atvinnulífið er gott, byggingarframkvæmdir eru hafnar og við sjáum uppbyggingu. Tækifæri sem ekki voru til staðar fyrir nokkrum árum eru að verða að veruleika og það er íbúafjölgun. Trúin á sunnanverðum Vestfjörðum er að aukast og við þurfum sjálf að auka trú okkar á svæðinu með jákvæðni og uppbyggilegri gagnrýni. Við þurfum að vera metnaðargjörn og vera stolt af því sem við höfum en gera sífellt miklar kröfur um að þjónustan batni. Þannig mun samfélagið Vesturbyggð sigla sterkt inn í framtíðina.

 

 

Patreksfirði, 20. desember 2013

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri

Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is