Árbók Barðastrandarsýslu 2011

Árbók Barðastrandarsýslu 2011 er komin út, 22. árgangur.

Bókin telur 206 síður að þessu sinni og Sögufélag Barðastrandarsýslu er útgefandi.

Lýður Björnsson lýkur við að rekja sögu Tálknafjarðar og birtar eru vísur og kvæði eftir Sigurð Guðmundsson frá Otradal í grein Svanhvítar Sigurðardóttur. Reki á Rauðasandi er grein eftir Ara Ívarsson sem segir frá nýtingu reka og fylgja vísur og kvæði sem tengast reka.

Þá er birt greinin Kirkjur og bænhús í Reykhólahreppi, Geiradalshreppi, Gufudalssveit og Múlahreppi í Austur-Barðarstrandasýslu eftir Stefán Ólafsson en í henni er fjallað um niðurstöður er varða þessi svæði í skráningarverkefni á guðshúsum sem unnið er að á landsvísu.

 

Þá ritar Finnbogi Jónsson um söluturninn Vött sem rekin var í tvo áratugi á Vattarnesi í Múlasveit. Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir segir frá landnámi jólatrésins í Barðastrandarsýslu og Jóhannes Geir Gíslason ritar greinina Traktorar sigla sem fjallar um sjóflutninga vélknúinna ökutækja til landabúnaðarstarfa við Breiðafjörð.

 

Birtar eru upplýsingar um láta sýslunga 2010 og skýrslur nokkurra félagasamtaka ásamt stuttri kynningu höfunda í ritinu.

 

Hægt er að panta árbókina hjá Hjörleifi Guðmundssyni, formanni félagsins, í síma 846 4730. Einnig eru til sölu eldri árgangar.

Árbók Barðastrandarsýslu er héraðsrit Barðastrandarsýslu. Í bókinni eru allra jafna birtar greinar um menn og málefni úr sýslunni, skrifaðar af fólki úr sýslunni eða fólki sem tengist henni. Árbókina prýðir fjöldi mynda sem fæstar hafa birst opinberlega áður. Árbókin er bæði fræðirit og skemmtirit.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is