Ásthildur Sturludóttir er nýr bæjarstjóri Vesturbyggðar

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar
Ásthildur Sturludóttir, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur, hefur verið ráðin bæjarstjóri Vesturbyggðar. Hún tekur við af Ragnari Jörundssyni sem verið hefur bæjarstjóri síðasta kjörtímabil.

Alls bárust 23 umsóknir um starf bæjarstjóra en sex umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Eftir úrvinnslu umsókna og viðtöl, ákvað bæjarráð að synja öllum umsækjendum. Ákveðið var að leita til Ásthildar sem ekki var á meðal umsækjenda. Ásthildur verður búsett á Patreksfirði og kemur til starfa í byrjun september næstkomandi.

Ásthildur er uppalin í Stykkishólmi. Hún er með BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York. Ásthildur starfar nú sem verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Áður var hún verkefnisstjóri við byggingu tónlistar - og ráðstefnuhússins Hörpu, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.

Sjálfstæðisflokkurinn myndar meirihluta bæjarstjórnar í Vesturbyggð og er Ingimundur Óðinn Sverrisson forseti bæjarstjórnar og Friðbjörg Matthíasdóttir formaður bæjarráðs.

 

Nánari upplýsingar veita:
Ingimundur Óðinn Sverrisson, forseti bæjarstjórnar, s. 895-4010
Ásthildur Sturludóttir, s. 864-2261

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is