Auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar

Vesturbyggð
Vesturbyggð

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum 29. júní 2011 að auglýsa skv. 31. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 123/2010 tillögu að breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018.

 

Vegagerðin hefur óskað eftir við sveitarfélagið að farið verði í breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006‐2018. Samhliða fer fram breyting á aðalskipulagi Reykhólahrepps 2006‐2018. Breytingin fjallar um nýja veglínu á Vestfjarðarvegi nr. 60 milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði. Innan Vesturbyggðar er um að ræða 2,4 km langan kafla rétt norðan við Þverá í Kjálkafirði aðsveitarfélagamörkum sem liggja í miðjum Kjálkafirði.

 

Skipulagsstofnun hefur farið yfir framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga, þegar brugðist hefur verið við eftirfarandi athugasemdum, en að öðrum kosti ber að auglýsa athugasemdir stofnunarinnar með tillögunni:

 

  • Í greinargerð á uppdrætti og í 2. kafla umhverfisskýrslu segir að nýi vegurinn verði stofnvegur en núvernadi vegur verði sýndur sem aðrir vegir, aðeins til skýringar. Aftar í umhverfisskýrslu s.s. í kafla 5.4.3 og 5.4.6 segir hins vegar að yfirborð aflagðra vega verði losað upp til að flýta fyrir sjálfssáningu t.d. birkis. Skipulagsstofnun bendir á að ljóst þarf að vera hvort eldri vegur verður aflagður eða nýttur sem aðrir vegir. Jafnframt er bent á að á innsendum uppdrætti virðist vanta tákn fyrir "aðra vegi" í skýringarnar.
  • Samkvæmt lýsingu/matslýsingu sem Skipulagsstofnun gaf umsögn um 6. apríl 2011 var gert ráð fyrir nýju efnistökusvæði við Seljahjalla. Nú er hvorki fjallað um efnistöku í greinargerð eða umhverfisskýrslu og ekki er merkt ný náma inn á skipulagsuppdrátt. Á skýringarmynd 3.2 í umhverfisskýrslu er hins vegar sýnt tákn fyrir námu E26 við Seljahjalla, sem nefnd er náma 4 á skýringarmynd 5.1 í umhverfisskýrslunni. Stofnunin minnir á að í skipulagstillögu og umhverfisskýrslu skal gera grein fyrir og meta áhrif af vegagerðinni og tengdum framkvæmdum t.d. nauðsynlegri efnistöku. Ljóst þarf að vera af gögnum hvort tekið verður efni og þá hversu mikið úr þeim þremur námum sem eru í Kjálkafirði skv. gildandi aðalskipulagi og hvort verið er að fjölga námum á svæðinu. Ef ekki er verið að fjölga námum þarf að taka táknið E26 út af mynd á bls. 6 og afmörkun námu 4 af mynd á bls. 14 og mynd 5.3. á bls. 16 í umhverfisskýrslu.
  • Í kafla 5.4.5 segir að áhrif skipulagsbreytingarinnar á fornleifar séu engin þar sem ekki sé þörf á að raska fornleifum vegna vegaframkvæmdar. Þessi fullyrðing er í ósamræmi við texta við mynd 5.1 þar sem merkt er varða sem þarf að fjarlægja. Lagfæra þarf þetta misræmi.
  • Í kafla 5.4.7 ætti að vísa til laga um vernd Breiðafjarðar hvað varðar viðmið til grundvallar mati á áhrifum á vatnafar þ.e. strönd og sjó.
  • Í samantekt umhverfisskýrslu og víðar segir að helstu neikvæðu áhrif breytingarinnar verði sjónræn t.d. vegna þverunar Kjálkafjarðar og einnig verði staðbundin neikvæð áhrif á gróður, einkum birki. Með mótvægisaðgerðum og hönnun á vegi megi hins vegar draga verulega úr þessum áhrifum. Í umhverfisskýrslu segir einnig að ekki sé gert ráð fyrir sérstakri vöktun umhverfisáhrifa umfram venjubundið eftirlit á framkvæmdaog rekstrartíma. Minnt er á að þegar niðurstaða umhverfismats gerir ráð fyrir neikvæðum áhrifum á tiltekna umhverfisþætti þarf að setja fram vöktunaráætlun þar sem fram kemur hvað á að vakta, í hverju vöktunin felst og hver vaktar.
  • Í 5. kafla segir m.a. að mat á áhrifum aðalskipulagsbreytingarinnar byggi á umsögnum og athugasemdum lögboðinna aðila. Samkvæmt innsendum gögnum virðist þó aðeins liggja fyrir umsögn Umhverfisstofnunar og bendir Skipulagsstofnun á að bíða hefði átt með að leggja fram umhverfismat þar til allar umsagnir höfðu borist. Bent er á að umsagnir Reykhólahrepps, Breiðarfjarðarnefndar, Vegagerðarinnar, Fornleifaverndar ríkisins o.fl. auk nýrrar umsagnar Umhverfisstofnunar, þurfa að liggja fyrir við endanlega afgreiðslu aðalskipulagsbreytingarinnar og afrit þeirra að berast til Skipulagsstofnunar.
  • Tillagan og tilheyrandi umhverfisskýrsla er til sýnis á skrifstofu Vesturbyggðar, Aðalstræti 63, 450 Patreksfirði og á heimasíðu Vesturbyggðar, www.vesturbyggd.is frá 21. júli 2011 til 18. ágúst 2011. Ennfremur er tillagan til sýnis hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík.

 

Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir viðtillöguna. Athugasemdum skal skila til skrifstofu Vesturbyggðar fyrir 1. september 2011 og skulu þær vera skriflegar. Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests teljast samþykkir henni.

 

20. júlí 2011.
Bæjarstjórinn íVesturbyggð,
Ásthildur Sturludóttir.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is