Bæjarstjórn Vesturbyggðar býður til samráðs um fjárhagsáætlun 2016

Bæjarstjórn Vesturbyggðar býður íbúum að taka þátt í gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016. Fyrirkomulagið verður þannig að haldnir verða íbúafundir á Bíldudal, Barðaströnd og Patreksfirði. Þar gefst íbúum kostur á að kynna hugmyndir að umbótaverkefnum, sem bæjarstjórn mun síðan velja úr og setja á fjárhagsáætlun. Á bak við tillögur geta staðið félagasamtök, nágrannar, fyrirtæki eða íbúar í einni götu eða hverfi, svo dæmi séu nefnd. Áfram er samt gert ráð fyrir að félagasamtök og aðrir sendi inn styrkbeiðnir, líkt og verið hefur. En þau geta, ef þau vilja, notað tækifærið og sagt frá hugmyndum og verkefnum á íbúafundunum. Þar verður líka kallað eftir skilaboðum íbúa um almenna forgangsröðun í fjárhagsáætlun.

Fyrsti íbúafundurinn verður haldinn á Bíldudal, mánudaginn 5. október, á Barðaströnd þriðjudaginn 6. október og á Patreksfirði miðvikudaginn 7. október. Allir fundirnir hefjast kl. 20. Umsjón með fundunum hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI í Grundarfirði, en hún hefur áralanga reynslu af samráði og íbúalýðræði hjá sveitarfélögum.

Er það endilega lögmál að umræða um sveitarstjórnarmál og peninga og forgangsröðun verkefna þurfi að vera leiðinleg? Nei, því er bæjarstjórn Vesturbyggðar ósammála og leggur áherslu á að samtalið milli bæjarstjórnar og íbúa geti verið skemmtilegt og uppbyggilegt!

Það er von okkar að íbúar séu til í að vera með!

Nánari upplýsingar eru hér í dreifibréfi.

Fyrir hönd bæjarstjórnar,

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri

 

Hvað svo?

Þegar fjárhagsáætlun liggur fyrir verður sent út annað dreifibréf með upplýsingum um helstu áherslur og verkefni. Þar verða færð rök fyrir niðurstöðum bæjarstjórnar um val á tillögum frá íbúum.

En hvað verður þá um aðrar tillögur, sem ekki verða fyrir valinu? Vesturbyggð mun aðstoða við að kanna aðrar leiðir til að láta hugmyndina verða að veruleika, t.d. í gegnum utanaðkomandi styrki.

Upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, asthildur@vesturbyggd.is, sími 450 2300. Þau sem vilja leggja fram hugmyndir á íbúafundunum, láti bæjarstjóra vita af því fyrirfram, eigi síðar en daginn fyrir fund.

Að lokum: TAKK!

Því allan ársins hring, bæta íbúar Vesturbyggðar samfélagið sitt með ómældri sjálfboðavinnu.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is