Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir aðför að samfélaginu og harmar frestun Dýrafjarðarganga

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Á 240. fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir harðlega aðförinni að samfélaginu á sunnanverðum Vestfjörðum með umsögn Skipulagsstofnunar um vegagerð á Vestfjarðavegi 60 frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði.

Með umsögn sinni leggst Skipulagsstofnun eindregið gegn vegagerð á svæðinu. Skipulagsstofnun er í raun að leggja til gamaldags vegagerð sem er óöruggari og alls ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til nútíma vegaframkvæmda.

Úrskurður Skipulagsstofnunar ber vott um fyrirfram ákveðnar skoðanir á vegagerð á Vestfjörðum og fullkomna vanþekkingu á staðháttum, samfélagi og lífríki á þessu svæði. Reynslan hefur t.d. sýnt fram á að arnarvarp spillist ekki vegna umferðar bíla heldur vegna annarra ástæðna.

Augljóst er á áliti Skipulagsstofnunar að enn á að tefja möguleikana á vegabótum um Vestfjarðaveg nr. 60.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar harmar ennfremur að Dýrafjarðargöng séu ekki sett á dagskrá fyrr en árið 2018-20. Það er sorglegt að sjá að samgöngubætur á Vestfjörðum séu svo aftarlega í forgangsröðuninni og raun ber vitni og öðrum verkefnum sem síðar voru áætluð sé skotið fram fyrir án fullnægjandi rökstuðnings og fjármögnunar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hvetur Vegagerðina til dáða í verkefnum sínum, þau eru mikilvæg fyrir land og þjóð.
 
Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is