Bæjarstjórn mótmælir hækkunum á raforkuverði

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir harðlega þeim miklu hækkunum á raforkuverði sem orðið hafa á síðustu mánuðum hjá raforkufyrirtækjum í ríkiseign.

 

Þær hækkanir koma harðast niður á raforkunotendum hinna svonefndu „köldu svæða". Þessar hækkanir, ásamt hækkunum á öðrum orkugjöfum t.d. bensíni og gasolíu, hafa aukið verulega á það misvægi sem þegar er til staðar milli þéttbýlisins við Faxaflóa og annarra byggðasvæða á Íslandi.

 

Skorar bæjarstjórnin á hæstvirtan iðnaðarráðherra að bregðast hið fyrsta við og koma á varanlegum úrræðum sem milda verulega það högg sem framangreindar hækkanir raforkuverðs hafa á rekstur viðkomandi heimila og fyrirtækja.

 

Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsir stuðningi við sjónarmið stjórnar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum varðandi síhækkandi raforkuverð raforkufyrirtækja ríkisins og þeirrar viðleitni hennar að opna augu stjórnvalda til skilnings og úrlausnar á þeirri mismunun sem felst í þessu fyrir íbúa sveitarfélaga á „köldum svæðum".

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is