Bændasamtökin og Dýraverndaráð um féð í Tálkna

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur borist bréf frá Bændasamtökum Íslands þar sem segir að stjórn samtakanna lýsi yfir „eindregnum stuðningi [...] við framgöngu yfirvalda í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi við að framfylgja lögum um fjallskil og búfjárhald".

 

Þá hefur Dýraverndaráð einnig fjallað um útigangsféð í Tálkna og í fundargerð ráðsins frá 18. nóvember 2009 segir:

 

„Tálknaféð er útigangsfé sem hefur orðið eftir á svæðinu vegna lélegrar smalamennsku og uppflosnun búskapar, einkum undanfarin 20-25 ár, og hefur ekki verið sinnt, hvorki af eigendum þess né eigendum landsins. Um fjórðungur þess fjár sem kom fram við smalamennsku í Tálkna í haust var sannanlega frá bæjum í Arnarfirði og á Barðaströnd. Samkvæmt lögum er bannað að halda útigöngufé á Íslandi og voru sveitarstjórnir að framfylgja þeim þegar fénu var smalað. Á myndum af fénu sem náðist í Tálkna og lagðar voru fram á fundinum mátti sjá hrút með horn vaxið inn í auga, ær þar sem horn var um það bil að vaxa í auga og hrút sem misst hafði neðan af fæti. Augljóst má vera að þessi dýr hafa þjáðst og slíkt samræmist ekki dýraverndarlögum. Alþingi hefur nú lagt málið fyrir þrjú ráðuneyti, dómsmála-, umhverfis- og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti."

 

Dýraverndurarráð samþykkti jafnframt samhljóða eftirfarandi ályktun:

 

„Tálknaféð er fé sem hefur orðið viðskila við annað fé sem haldið var á þessu svæði og sinnt var af eigendum sínum. Tálknaféð er af stofni búfjár sem hefur verið undir manna höndum frá landnámi og háð umönnun mannsins. Ef ætlunin er að gera stofn sem verið hefur undir manna höndum villtan yrði að gera það undir mjög góðu eftirliti og við viðunandi skilyrði þannig að öruggt sé að velferð dýranna sé tryggð og á þetta við um öll dýr. Aðstæður á Tálkna eru þannig að ekki er unnt að sinna eftirliti með dýrunum og grípa inn í til að koma í veg fyrir eða stöðva þjáningar þeirra. Af þessum ástæðum styður dýraverndarráð að féð sé fangað og því komið undir manna hendur. Dýraverndarráð harmar hins vegar að við aðgerðirnar hafi dýr hrapað fyrir björg, en hefur skilning á að erfitt getur verið að koma í veg fyrir slíkt".

 

Þess ber að geta að ekkert hefur heyrst frá ráðuneytunum þremur um þetta mál enn sem komið er.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is