Baldur leysir Herjólf af

Baldur
Baldur
Ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs falla niður ríflega hálfan septembermánuð vegna þess að skipið verður í siglingum milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Aldrei hefur verið betri nýting á skipinu á Breiðafirðinum en nú í sumar.


Ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs milli Stykkishólms og Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey, falla niður milli sjötta og tuttugasta og annars september næstkomandi. Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða í Stykkishólmi sem reka ferjuna Baldur, segir að Breiðafjörður verði ferjulaus á meðan. Afleysingin sé mun ódýrari fyrir ríkið en að leigja ferju erlendis frá.

 

Samgöngur milli Flateyjar og Stykkishólms verða leystar á meðan með stórum farþegabát sem fer fjórum sinnum í viku. Þeir sem ætla á milli Vesturlands og sunnanverðra Vestfjarða þurfa hinsvegar að treysta alfarið á vegakerfið á meðan. Þess má geta nýting á Baldri hefur aldrei verið meiri en í sumar að sögn Péturs. Bæði hefur verið aukning í farþegaflutningum til og frá Flatey og einnig hefur aldrei verið meiri ferðamannastraumur á Vestfirði að hans sögn.

 

Frétt af ruv.is

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is