Breytingar í rekstri íþróttamiðstöðvarinnar Bröttuhlíðar

Battahlíð
Battahlíð
Um áramótin áttu sér stað breytingar í rekstri íþróttamiðstöðvarinnar Bröttuhlíðar á Patreksfirði.

 

Gjaldskrá tók ákveðnum breytingum en reynt var að hafa hagsmuni heimafólks að leiðarljósi við endurskoðun hennar og þá sérstaklega hvað varðar aldurshópinn 6-16 ára.

 

Í sund er áskriftakort sá kostur sem best kemur út í verðsamanburði og lækka árskort fyrir börn til dæmis úr 10.500 í 7.500. Að sama skapi hækka almenn árskort eingöngu úr 27.500 í 28.000.

 

Í þreksal var einnig horft til þess að gera áskriftarkort að hagkvæmasta kosti og leitast við að hækka ekki meir en sem nemur vísitöluhækkun frá síðustu gjaldskrárbreytingu.

 

Opnunartími í Bröttuhlíð mun styttast örlítið en tekin var ákvörðun um að hafa lokað á sunnudögum yfir vetrartímann. Þessi breyting var lögð til af starfsfólki í íþróttamiðstöðinni þar sem sýnt þótti að þessi tími hefði minnst áhrif á þjónustustig íþróttamiðstöðvarinnar.

 

Að öðru leyti er bent á gjaldskrá íþróttamiðstöðvar (PDF 58 KB) undir liðnum þjónusta á heimasíðu Vesturbyggðar, en þar eru greinagóðar upplýsingar um opnunartíma og verðskrá.

 

Rétt er að geta þess að kort sem eru keypt í Byltu á Bíldudal gilda að sjálfsögðu líka í Bröttuhlíð á Patreksfirði og öfugt.

 

Breyting varð á aðgengi yngstu gesta sundstaða frá og með áramótum samanber meðfylgjandi orðalag úr nýrri reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum frá árinu 2010, en þar segir í 14.gr.

 

„Börnum yngri en 10 ára er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Ekki skal leyfa viðkomandi að hafa fleiri en tvö börn með sér, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna.“

 

Farið verður af stað með heilsuátak í Vesturbyggð á árinu og er áætlað að byrja með það snemma nú í janúar. Gert er ráð fyrir að átakið verði með svipuðu sniði og 2009 en það verður kynnt nánar þegar nær dregur.

 

Að lokum vonast starfsfólk sund og íþróttahúsa í Vesturbyggð til að sjá sem flesta íbúa á komandi ári.

 

Geir Gestsson
forstöðumaður íþróttamiðstöðvarinnar Brattahlíð

 

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is