Enn er hoggið í sama knérunn!

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur
Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur
Ályktun frá bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps vegna Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar.

„Bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps mótmæla harðlega þeim niðurskurði sem kynntur hefur verið á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni í Fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011. Áætlaður niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar, sem er 26 milljónir króna á næsta ári er rothögg fyrir samfélögin þar í kring.

Lágmarks heilbrigðisþjónusta er hluti af grunngerð samfélags og með boðuðum niðurskurði verður þessi grunngerð ekki lengur til staðar á sunnanverðum Vestfjörðum. Með niðurskurðinum verður öryggi íbúanna stefnt í hættu. Tillögur ríkisstjórnarinnar lýsa fullkomnu skilningsleysi og vanþekkingu á staðháttum. Með boðuðum niðurskurði mun þjónusta skerðast enn frekar en orðið er og er hún þó í algjöru lágmarki.

Í minni samfélögum skiptir hvert starf máli. Niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar mun hafa víðtæk áhrif á fjárhag sveitarfélaganna enda leiðir hann til umtalsverðar lækkunar á útsvarstekjum. Íbúar geti ekki tekið þeim skilaboðum frá stjórnvöldum á annan hátt en að eyða eigi byggð á Vestfjörðum þar sem grunnþjónusta verður ekki lengur í boði. Það er óþolandi að enn og aftur fari megnið af niðurskurði ríkisvaldsins fram á landsbyggðinni og hafa sunnanverðir Vestfirðir ekki farið varhluta af því. Síðast var Sýslumaðurinn á Patreksfirði fluttur til Ísafjarðar til tímabundinna verkefna og fátt bendir til þess á að það starf verði endurheimt heim í hérað í bráð. Enn er því hoggið í sama knérunn sem var þó sár fyrir!

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps skora á Heilbrigðisráðherra, ríkisstjórn, fjárlaganefnd og þingmenn Norðvesturkjördæmis að standa vörð um þá góðu heilbrigðisþjónustu sem landsmönnum býðst og að leiðrétta þessar hugmyndir um niðurskurð strax."

Áhrif niðurskurðarins á sunnanverðum Vestfjörðum:


1. Á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar
 • Niðurskurður á Fjárlögum 2011 eru 26 milljónir sem eru 10% af grunnfjárveitingu Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar. Áhrifin af þeim niðurskurði eru að stofnunin mun ekki verða fær um að sinna grunnþjónustu við íbúana með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið.
 • Síðustu ár hefur verið umtalsverður niðurskurður á fjárveitingum hjá Heilbrigðistofnun Patreksfjarðar.
 • Stöðugildum hefur verið fækkað.
 • Mikil hagræðing hefur átt sér stað á síðustu árum og stjórnendur og starfsfólk hafa sýnt ríkan vilja til að hagræða og spara í rekstrinum til að koma í veg fyrir uppsagnir og verri þjónustu.

2. Á samfélagið og byggðirnar á sunnanverðum Vestfjörðum

 • Skerðing á öryggi íbúa.
 • Kallar á eflingu sjúkraflugs og sá kostnaðarauki hefur ekki verið metinn.
 • Skerðing á þjónustu , og þar með mismunum landsmanna, varðandi þjónustuframboð.
 • Neikvæð byggðaþróun.
 • Fækkun sérfræðistarfa, eykur fábreytni atvinnulífs.
 • Fækkun íbúa.
 • Lækkun tekna sveitarfélaga og minni geta til að standa undir nauðsynlegri grunnþjónustu.

Hvaða lausnir eru til staðar?

 • Stjórnvöld átti sig á staðháttum og aðstæðum vegna landfræðilegrar legu, samgangna og veðurfars á sunnanverðum Vestfjörðum.

 • Stjórnvöld taki ekki ákvarðanir sem munu koma til með að breyta starfsemi stofnunarinnar án samráðs við stjórnendur og sveitarstjórnarmenn á svæðinu.

F.h. Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps,

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti


Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is