Farsýslan og ný Vegagerð

Samþykkt hafa verið á alþingi tvenn ný lög um sameiningu samgöngustofnana.

Annars vegar voru samþykkt lög um að stofnsetja Farsýsluna, sem fara skal með stjórnsýslu samgöngumála og hinsvegar lög um Vegagerðina sem hefur það hlutverk að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins.

Með stofnun Farsýslunnar og hinnar nýju Vegagerðar verða til tvær nýjar stofnanir á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar.

Undirbúningur að endurskipulagningu samgöngustofnana hófst í framhaldi af stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar í júní 2008 þar sem settar voru fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála. Í janúar 2009 skipaði þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála og kynnti hún nokkra valkosti með skýrslu sinni. Ákveðið var að hefja undirbúning að stofnun tveggja stofnana:
  • Stjórnsýslustofnunar með sameiningu Umferðarstofu, Flugmálastjórnar og stjórnsýsluverkefna Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar.
  • Framkvæmda- og rekstrarstofnunar með sameiningu framkvæmda- og rekstrarverkefna Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.

Á næstu vikum og mánuðum verður formleg stofnun Farsýslunnar og Vegagerðarinnar undirbúin en gert er ráð fyrir að starfsmönnum núverandi stofnana verði boðin störf við hinar nýju stofnanir. Samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum eiga stofnanirnar að taka til starfa 1. júlí á næsta ári.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is