Fjallað um framhaldsdeildina á alþingi

Alþingi
Alþingi
Fjallað var um framhaldsdeild Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði á alþingi í liðinni viku í kjölfar fyrirspurnar Þorgerðar K. Gunnarsdóttur um deildina.

 

Gerður var samningur milli menntamálaráðuneytisins, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps um tilraunarekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði til fjögra ára og hóf deildin starfssemi árið 2007.

 

Að meðaltali hafa 65% brautskráða grunnskólanemenda á suðursvæði Vestfjarða stundað nám í deildinni og nú í haust fór þetta hlutfall upp í 70% en 16 nemendur hófu nám í deildinni að loknum grunnskóla. Alls voru 35 nemendur skráðir til náms í framhaldsdeildinni í haust.

 

Nokkrir þingmenn tóku til máls í umræðunum og þróuðust þær yfir í almennar umræður um framhaldsnám á landsbyggðinni. Ein af ástæðum þess að tekin var ákvörðun um framhaldsdeildinna voru vísbendingar um að margir foreldra fylgdu börnum sínum burt úr byggðarlögunum og þangað sem framhaldsskólar voru starfandi.

 

Framhaldsdeildir eru starfandi á Patreksfirði, í Fjallabyggð og á Þórshöfn á Langanesi og fleiri sveitarfélög eru að velta þessum möguleika fyrir sér.

 

Reynslan af því að færa framhaldsmenntunina heim í hérað hefur verið góð og almenn ánægja er ríkjandi með þetta fyrirkomulag að sögn Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is