Fjarðalax eykur umsvif

Blakkur í Patreksfirði
Blakkur í Patreksfirði
Laxeldisfyrirtækið Fjarðalax á Tálknafirði mun í sumar setja þriðju kynslóð laxaseiða í sjó í Patreksfirði að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

 

Um er að ræða stærstu kynslóð fyrirtækisins hingað til, 800-900.000 seiði, og vinnur fyrirtækið nú að gerð nýrrar starfsstöðvar á Patreksfirði. Unnið er að uppsetningu fóðurstöðvar í landi þar sem fóðri verður dælt út í sjókvíar með tölvustýrðu fóðurkerfi með sama hætti og gert er í stöðinni í Fossfirði í Arnarfirði.

 

Nú er unnið að slátrun fyrstu kynslóðar fyrirtækisins en hún hefur verið alin í Tálknafirði frá miðju ári 2010. Önnur kynslóðin dafnar mjög vel í Arnarfirði og verður hafist handa við slátrun úr henni seinna á þessu ári.

 

Hjá Fjarðalax starfa nú 30 manns en gert er ráð fyrir fjölgun með auknum umsvifum og að síðla næsta árs verði þeir allt að 60.

 

Fjarðalax styðst við nýtt eldismódel sem byggir á eldi í þremur aðskildum fjörðum, með drjúgan hvíldartíma á hverju svæði á milli hverrar kynslóðar.

 

Íslensk stjórnvöld hafa nú gert Fjarðalaxi kleift að skipuleggja eldi sitt með þessum hætti og hefur fyrirtækið nú yfir að ráða rekstrarleyfum til 1500 tonna ársframleiðslu í hverjum firði fyrir sig.

 

Langtímamarkmið fyrirtækisins gera ráð fyrir allt að 10.000 tonna ársframleiðslu árið 2017, fáist til þess leyfi. Með þau markmið í huga undirbýr Fjarðalax uppsetningu starfsstöðva á Patreksfirði, við Bauluhús í Arnarfirði, auk stækkunar og endurbóta við Fossfjörð í Arnarfirði.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is