Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2014 samþykkt í bæjarstjórn

Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2014 var samþykkt í bæjarstjórn Vesturbyggðar við síðari umræðu 20. desember sl.

 • Gert er ráð fyrir tekjuaukningu Vesturbyggðar milli ára vegna fólksfjölgunar og aukinna umsvifa.
 • Heildartekjur samstæðunnar eru áætlaðar 992 milljónir og heildargjöld eru áætluð 918 milljónir. Reksturinn fyrir fjármagnsliði jákvæður um 74 milljónir kr.
 • Fjármagnsliðir eru 74 milljónir.
 • Rekstarniðurstaða samstæðunnar verður jákvæð um 0,5 milljónir  kr. á árinu.
 • Veltufé frá rekstri áætlað 83 milljónir kr.
 • Langtímaskuldir áætlaðar 955 milljónir kr. Skuldir verða greiddar niður um 29 milljónir kr. á árinu
 • Skuldahlutfall lækkar í 127,2% en leyfilegt hámark eru 150% skv. Sveitarstjórnarlögum.

Bæjarstjórnin stendur sameiginlega að áætluninni sem sem unnin var í nánu samstarfi við alla stjórnendur Vesturbyggðar.

Sérstök áhersla hefur verið sl. ár á viðhald eigna sveitarfélagsins og hefur mikið áunnist en þó er enn mikið eftir. Stærsta verkefni komandi árs verður viðhald á endurbætur á húsnæði og útisvæði leikskólans Arakletts á Patreksfirði og viðhald og endurnýjum á íþróttamiðstöðinni Bröttuhlíð vegna hönnunargalla á húsinu. Ennfremur verður haldið áfram viðhaldi og endurnýjun á Grunnskólum Vesturbyggðar og kennslutæki endurnýjuð. Áfram verður unnið að átaki í gangstéttagerð og viðhaldi á götum í sveitarfélaginu. Framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Patreksfirði fyrir ofan skólamannvirki og sjúkrahús lýkur á komandi ári og farið verður í ofanflóðavarnir við Litla-Dalsá á Patreksfirði. Áfram verður unnið að viðhaldi á fráveitu og vatnsveitu og stofnæðir endurnýjaðar til að mæta þörfum atvinnulífsins. Gjaldskrár fylgja breytingu verðlags og hækka um 5%. Gjaldskrár leikskóla, skólamáltíða og lengdrar viðveru hækka um 2,5% og ríflegur systkinaafsláttur verður áfram í boði. Rétt er að taka fram að leikskólagjöld hafa ekki hækkað sl. ár. Þá munu sorphreinsigjöld og sorpeyðingargjöld ekki hækka milli ára. Gjaldskrá Tónlistarskóla mun lækka og boðið verður upp á gjaldfrjálst nám fyrir 6 ára nemendur í blokkflautuleik.

 

Heildarskuldbindingar Vesturbyggðar; langtímalán, skammtímalán og lífeyrissjóðs-skuldbindingar eru áætlaðar að verði 1.268 milljónir og eigið fé 269 milljónir kr. í lok næsta árs Skuldahlutfall er áætlað að lækki í 127,2% í lok næsta árs. Rétt er að geta þess að skuldahlutfallið var áætlað 156,6% í síðustu fjárhagsáætlun.


Útsvar og fasteignagjöld
Útsvarsprósenta verður hækkar lítillega vegna lagabreytingar 14,52%. Álagningarstuðull fasteignaskatts á A-flokk húsnæðis (íbúðir) er óbreytt eða  0,525%, vatnsgjald á íbúðir verður óbreytt eða 0,450% vegna vatnsveituframkvæmda og fráveitugjald verður óbreytt eða 0,350% vegna endurbóta á lagnakerfi.

 

Helstu verkefni

 • Viðhald á húsnæði og útisvæðis á Arakletti.
 • Viðhald og endurbætur á íþróttamiðstöðinni Bröttuhlíð.
 • Viðhald á Bíldudalsskóla, seinni áfangi framkvæmda við nýja glugga og vatnslagnir. Kennslustofur málaðar og ný gólfefni sett á salerni.
 • Viðhald á lýsingu, endurnýjun gólfefnis, seinni áfangi á nýju þaki og málningarvinna í Patreksskóla.
 • Viðhald á Birkimelsskóla.
 • Hönnun útisvæðis á leikskólanum Tjarnarbrekku, viðhald á húsnæði innandyra og utan.
 • Ofanflóðavarnir á Patreksfirði, Klif og Litli-Dalur.
 • Viðhald á íbúðum Fasteigna Vesturbyggðar. Nýjar vatnslagnir og endurnýjun á Sigtúni 29-35.
 • Nýjar gangstéttar á Patreksfirði og Bíldudal.
 • Íþrótta-og æskulýðsfulltrúi í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.
 • Nýjar stofnæðar í vatnsveitu á Bíldudal og Patreksfirði.


Nánari upplýsingar veitir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri. Sími: 864-2261. Netfang: asthildur@vesturbyggd.is.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is