Fjöldi erlendra ferðamanna í júní

Brottfarir erlendra gesta um Leifsstöð í júní voru 53.500, eitt þúsund færri en í júní á síðasta ári.

Fækkunin nemur tveimur prósentum milli ára. Frá áramótum hafa 170.400 erlendir gestir farið frá landinu, 8.500 færri en árinu áður, fækkunin nemur tæpum fimm prósentum á milli ára.

 

Þróunin á milli einstakra markaðssvæða er nokkuð ólík í júní. Þannig er veruleg fjölgun frá Norður-Ameríku, eða rúm 21% á meðan fækkun er frá öðrum mörkuðum. Þó má sjá fjölgun hjá einstökum löndum, þannig fjölgar Þjóðverjum í júní um 13,3% á milli ára, Frökkum um 7,8% og Norðmönnum um 5,3%. Veruleg fækkun er hins vegar frá Hollandi, eða 38,8% og má m.a. rekja það til fjölda Hollendinga sem kom til landsins í tengslum við landsleik Íslands og Hollands í júní í fyrra í undankeppni HM í knattspyrnu.

 

Hvað varðar fjölgun frá Bandaríkjunum þá hefur orðið mest aukning á svokölluðum „stop-over" farþegum sem dvelja hér á landi í 2-4 sólarhringa á leið sinni yfir hafið. Einnig hefur sætaframboð aukist til Bandaríkjanna, t.d. með flugi á vegum Iceland Express.

 

Sé litið á árið í heild eru niðurstöður áþekkar, þ.e. fjölgun frá Norður-Ameríku en fækkun víðast annars staðar. Góð fjölgun Breta fyrstu þrjá mánuði ársins skilar þó aukningu þaðan upp á 3,5% frá áramótum.

 

Íslendingar fara nú utan í auknum mæli. Þannig fóru 13,4% fleiri utan í júnímánuði í ár en í fyrra en frá áramótum hefur brottförum þeirra fjölgað um tæp 6%.

 

Framundan eru tveir stærstu ferðamánuðir ársins, júlí og ágúst. Í fyrra voru nærri 40% brottfara erlendra gesta í Leifsstöð í þessum mánuðum.

 

Þetta kemur fram í frétt frá Ferðamálastofu.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is