Flugfélagið Ernir og Vegagerðin semja um áætlunarflug

Ernir
Ernir
Flugfélagið Ernir og Vegagerðin hafa náð samkomulagi um að tryggja áframhaldandi áætlunarflug milli Reykjavíkur annars vegar og hins vegar Sauðárkróks, Gjögurs og Bíldudals.

Flugfélagið fær aukinn styrk til Vestfjarðaflugsins en styrkur til Sauðárkróksflugs fellur niður.

 

Í framhaldi af þeirri ákvörðun samgönguyfirvalda að hætta styrk til flugs á Sauðárkrók vegna breyttra forsendna óskaði Flugfélagið Ernir eftir endurskoðun á samningi við Vegagerðina um styrki til flugs á nokkrum leiðum, einkum til Bíldudals og Gjögurs á Vestfjörðum. Málið var til meðferðar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og var Vegagerðinni falið að leita leiða til lausna með viðræðum við flugfélagið.

 

Vegagerðin og Flugfélagið Ernir hafa að undanförnu rætt þessa stöðu og leitað leiða til að endurskoða fyrirliggjandi samning og lauk þeim viðræðum með nýjum samningi í dag, 9. desember. Samningurinn felur í sér nokkra hækkun á styrk til Vestfjarðaflugsins en Flugfélagið Ernir tekur þó á sig aukna áhættu í fjárhagslegri útkomu á þeim flugleiðum, auk þess að freista þess að halda áfram áætlunarflugi til Sauðárkróks án ríkisstyrks næsta ár. Flug til Gjögurs er tryggt til 1. janúar 2012 og til Bíldudals til 1. janúar 2013. Eftir það getur Vegagerðin sagt upp samningi á einstökum leiðum með þriggja mánaða fyrirvara.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is