Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn

Í gamla kaupfélagshúsinu á Patreksfirði er uppsett sýning um frönsku fiskimennina og samskipti þeirra við Íslendinga fyrr á tíð.

Opnunartími er kl. 14- 17 alla daga í sumar, nema á mánudögum en á öðrum tímum samkvæmt samkomulagi.

Síðastliðin ellefu ár hefur María Óskarsdóttir á Patreksfirði safnað efni í sýninguna. Hún hefur látið þýða 64 texta yfir á frönsku, texta sem hún hefur ýmist fundið í gömlum bókum eða fengið með viðtölum við eldra fólk á Patreksfirði. Flesta textana hefur Catherine Eyjólfsson í Reykjavík þýtt en ætlunin er að gefa út vandaða bók um efnið, með fjölda gamalla og nýrra mynda.

María hefur einnig fengið myndir frá Frakklandi, sem teknar voru á miðunum við Ísland og í landi, á árunum 1907-8. Áhafnarmeðlimur á einu af spítalaskipunum tók myndirnar bæði um borð í skútum og í landi, við Austfirði og í Vestmannaeyjum. „Það er ómetanlegt að hafa fengið þessar myndir," segir María, „því þær passa svo vel með sögunum." Einnig hefur María fengið gamlar myndir frá sunnanverðum Vestfjörðum til að setja með þeim sögum sem eru af svæðinu. Um helmingur textanna hafa sunnanverða Vestfirði að sögusviði.

María setti upp sýningu hjá Alliance Francaise í Reykjavík í fyrra sumar. Sýningin á Patreksfirði er að hluta til sama sýningin, en bætt hefur verið við hana ýmsum munum, sem tengjast gengnum kynslóðum.

Sýningin er um „sýn Íslendinga á frönsku sjómennina og hin ýmsu samskipti þeirra", allt frá verslunarháttum til smáþjófnaða á báða bóga.

 

Á árunum 2001 og 2002 var tvisvar haldinn fransk-íslenskur sjómannadagur á Patreksfirði og seinna árið var reist  á Patreksfirði myndarlegt minnismerki um frönsku sjómennina.

 

Frakkar hafa sýnt þessum ,,týnda hlekk" eins og þeir kalla efni Maríu mikinn áhuga og hafa boðið henni og manni hennar, Halldóri Árnasyni, að setja sýninguna upp í  Saint-Brieuc á Bretagne-skaga á haustdögum.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is