Frumvarp til laga um breytingar á Stjórnarráði Íslands

Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg í Reykjavík
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg í Reykjavík
Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Markmið þess er að endurskipuleggja ráðuneyti og gera þjónustu hins opinbera við almenning og atvinnulíf eins góða og kostur er með þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru hverju sinni.

Í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lagt til að ráðuneytum verði fækkað úr tólf í níu og að færð verði saman verkefni til að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Stækkun ráðuneyta á jafnframt að gera þeim betur kleift að takast á við aukin og flókin stjórnsýsluviðfangsefni og að tryggja formfestu. Þá bjóða sameinuð ráðuneyti upp á meiri möguleika til sérhæfingar og meira bolmagn til nýsköpunar og þróunarstarfs eins og m.a. kemur fram í skýrslu starfshóps um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

 

Samkvæmt frumvarpinu verða félags- og tryggingamálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti sameinuð í velferðarráðuneyti. Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti sameinast samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í innanríkisráðuneyti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sameinast iðnaðarráðuneyti í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Og umhverfisráðuneytið verður að umhverfis- og auðlindaráðuneyti og fær aukið vægi í rannsóknum, stefnumörkun og áætlunum sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda.

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is