Fundað um atvinnumál

Bæjaryfirvöld á sunnanverðum Vestfjörðum hafa boðað þingmenn til fundar við íbúa og fulltrúa atvinnulífsins þann 27. október kl. 17 í Félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem atvinnumálin og hagsmunamál íbúanna verða rædd við þingmenn kjördæmisins.

„Vestfirskar byggðir eiga undir högg að sækja með harkalegum niðurskurði á fjárlögum 2011 til opinberra stofnana á svæðinu og tilheyrandi skertrar þjónustu fyrir íbúa svæðisins. Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar og Sýslumannsembættið á Patreksfirði hafa orðið fyrir gríðarlegum niðurskurði síðustu ár og enn er skorið niður," segir í tilkynningu.

 

Þar er jafnframt bent á að sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu eigi einnig undir högg að sækja vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir um stjórn fiskveiða sem hefur nánast lamað leigumarkað á kvóta með tilheyrandi óöryggi í rekstrarumhverfi útgerða- og fiskvinnslufyrirtækja á svæðinu.

 

Þá eru samgöngur til og frá svæðinu eru hvorki til að bæta samkeppnisumhverfi gjaldeyrisskapandi fyrirtækja á svæðinu, né til þess fallið að ýta undir starfsemi nýrra fyrirtækja sem eru að hefja starfsemi á svæðinu. „Allt þetta skerðir samkeppnishæfni sunnanverðra Vestfjarða sem atvinnusvæðis en það hefur alla burði til að vaxa, dafna og laða til sín íbúa til spennandi starfa," segir ennfremur í tilkynningu.

 

Framsöguerindi flytja eftirfarandi aðilar Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð, Úlfar B. Thoroddsen forstöðumaður, Heilbrigðisstofnunar Patreksfjarðar, Sigurður Viggósson framkvæmdastjóri Odda hf., Ari Hafliðason, framkvæmdastjóri Þórsbergs hf., Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Fjarðarlax ehf. (North Landing LLC), Guðmundur V. Magnússon, framkvæmdastjóri Ískalks, Alda Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Sjóræningjahússins og Björn Magnússon, formaður Atvinnumálanefndar Vesturbyggðar.

 

Fundarstjóri verður Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps. Eftir fundinn gefst fundarmönnum kostur á að ræða við þingmenn Norðvesturkjördæmis yfir kaffibolla.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is