Fundur um göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar

Göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar
Göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar
Hópur áhugafólks um bættar samgöngur á Vestfjörðum gengst fyrir opnum fundi um göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu á laugardaginn.

Á fundinum munu fulltrúar Náttúrustofu Vestfjarða kynna umhverfismat sem unnið hefur verið um göngin og fulltrúi frá Vegagerðinni mun segja frá störfum nefndar sem samgönguráðherra skipaði um vegalagningu á Dynjandisheiði. Þá munu fulltrúar heimamanna flytja ávörp og ræða um mikilvægi ganganna fyrir samgöngur á svæðinu. Fulltrúum þingflokkanna verður gefinn kostur á að taka til máls og kynnt verður ályktun fundarins.

Hópurinn sem stendur að fundinum vill með honum vekja athygli á þeirri skoðun Vestfirðinga að göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar verði að veruleika í samræmi við þá samgönguáætlun sem nú er í gildi. Fundurinn er haldinn sama dag og samgönguráðherra er væntanlegur vestur til að sprengja síðustu sprenginguna í Óshlíðargöngum.


Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, er forsprakki hópsins, sem að fundinum stendur, en með honum að undirbúningi hafa unnið meðal annarra, Sigurður Pétursson og Halldór Halldórsson í Ísafjarðarbæ, Ragnar Jörundsson í Vesturbyggð, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir á Tálknafirði, Eggert Stefánsson frá Þingeyri, Sigmundur Þórðarson á Þingeyri og Sigurður Jón Hreinsson frá Auðkúlu í Auðkúluhreppi hinum forna.

 

Af skutull.is

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is