Góðar fréttir af grásleppuvertíð

Grásleppuvertíð hefur gengið afar vel í ár og hefur veiði aukist um 50% frá fyrri árum sem þó hafa talist góð.

Afurðaverð er einnig mjög gott. Þannig fengust 2. júní 2009 kr. 779,75 fyrir hvert kíló af grásleppuhrognum samkvæmt upplýsingum Reiknistofu fiskmarkaða, en verðið þann 3. júní í ár voru kr. 1.106,- fyrir hvert kíló. Þetta er verðhækkun upp á 42%.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur í samvinnu við Landssamband smábátaeigenda verið með sérstakt átak í fullnýtingu á grásleppuafurðum. Þannig fóru þrír gámar af frosinni grásleppu til Kína í fyrra og er áætlað að nú fari 10 gámar. Áður en þetta átak fór af stað var grásleppunni fleygt eftir hrognatöku að frátöldu lítilræði sem látið var síga. Hér er ráðuneytið að framfylgja yfirlýstri stefnu ráðherra um fullnýtingu afla og snýr að siðlegri umgengni við sjávarauðlindina. Möguleikar á nýtingu ýmissa aukaafurða hafa einnig batnað mjög á undanförnum áratug og nú er búin til fullgild vara úr aukaafurðum af grásleppu sem óhugsandi hefði þótt að hirða hér áður fyrr.

 

Á síðasta ári voru flutt út frá Íslandi söltuð grásleppuhrogn fyrir 939 milljónir króna en árið á undan fyrir 562 milljónir. Nánast sama magn er á bak við þessar tölur. Útflutningsverðmæti kavíars jókst hins vegar úr 810 milljónum króna í 1.604 milljónir. Á síðasta ári var meðalverðið 148 þúsund krónur á tunnuna. Samanlagt jókst útflutningsverðmæti þessara afurða úr 1,4 milljörðum árið 2008 í um 2,5 milljarða árið 2009.

 

Íslendingar veiddu í fyrra um helming heimsafla af grásleppuhrognum, en auk Íslendinga eru helstu veiðiþjóðirnar Nýfundlendingar, Grænlendingar og Norðmenn.

 

Miðað við verðhækkanir og aflaaukningu á vertíðinni gætu grásleppuveiðar á Íslandi verið að skila 5,3 milljörðum í útflutningsverðmæti.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is