Hálandaleikarnir á Patreksfirði

Dagana 2.- 6. júní 2011 fara fram skosku Hálandaleikarnir á Patreksfirði. Leikarnir kallast á ensku „Iceland Highland Games".

 

Leikarnir verða hluti hátíðahalda Sjómannadagsins sem árlega er haldinn hátíðlegur á Patreksfirði. Stjórn Sjómannadagsins sér um að halda leikana í samvinnu við Pétur Guðmundsson, kúluvarpara, en Pétur hefur keppt í Hálandaleikum um árabil og er núverandi heimsmethafi í steinkasti.

 

Ákveðið var að ráðast í þessa framkvæmd vegna þess að Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur á Patreksfirði í 70 skipti og er ein stærsta hátíð sjómannsins á Íslandi.

 

Mörgum þekktum erlendum keppendum hefur þegar verið boðið á leikana og er áætlaður fjöldi þeirra 18 manns, 6 konur, 6 karlar og 6 öldungar. Með þessum útlendingum keppa svo tveir bestu Íslendingarnir í hverjum flokki og gefur sigur Íslandsmeistaratitil.

 

Þá má geta þess að fulltrúar íslenskra og erlendra sjónvarpsstöðva verða á leikunum og með keppnisfólkinu. Þetta er því einstakt tækifæri til að kynna Vesturbyggð og nágrenni fyrir fjölmiðlafólki og aðilum sem öllu jöfnu kæmu annars ekki á suðursvæði Vestfjarða.

 

Skipulagðar verða ferðir með keppendur og fjölmiðlafólk að Dynjanda og út á Látrabjarg.

 

Þar sem um heimsviðburð er að ræða hér á Íslandi/Patreksfirði þessa daga, má ætla að fjöldi gesta sæki hátíðina heim og fjölmenni á Hálandaleikana sem haldnir verða í hjarta bæjarins á knattspyrnuvellinum.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is