Heiðursborgarar Vesturbyggðar

Hannes Friðriksson, Helga Bjarnadóttir og Bjarni Hákonarson
Hannes Friðriksson, Helga Bjarnadóttir og Bjarni Hákonarson

Á síðasta fundið bæjarstjórnar árið 2017 voru fjórir heiðursborgarar kjörnir. Voru þrír þeirra heiðraðir sl. laugardag við athöfn í Félagsheimilinu á Patreksfirði.

Bjarni Hákonarson 

Bjarni er fæddur og uppalinn í Haga á Barðaströnd. Ævistarf hans hefur verið að vera bóndi í Haga á Barðaströnd, ásamt því að stunda útgerð. 

Bjarni er Gagnfræðingur frá menntaskólanum á Akureyri og búfræðingur frá Hvanneyri.

Bjarni hefur alla tíð verið aðsópsmikill í heimabyggð. Hann var lengi í hreppsnefnd Barðastrandarhrepps  og hreppstjóri í mörg ár. Bjarni var í fyrstu bæjarstjórn sameinaða sveitarfélagsins Vesturbyggðar frá árinu 1994. 

Bjarni sat lengi í stjórn Breiðafjarðarferjunnar Baldurs og í stjórn Mjólkursamlags Barðstrendinga. Hann var fulltrúi hreppsins í Bændasamtökum Íslands. Stöðvarstjóri Pósts og síma á Barðaströnd. Var í sýslunefnd og jarðarnefnd. Bjarna var alltaf mjög umhugað um Birkimelsskóla var lengi prófdómari í skólanum. Þá var hann póstur,  gangnastjóri og réttarstjóri í sveitinni. Bjarni sat ennfremur í ótal nefndum og gegndi trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélögin á Barðaströnd og Vesturbyggð. 

Eiginkona Bjarna er Kristín Haraldsdóttir og eiga þau 7 börn og 60 afkomendur í allt.

Hannes Friðriksson

Hannes Friðriksson er fæddur og uppalinn á Bíldudal. Hefur allan sinn starfsferil verið verslunarmaður á Bíldudal. Byrjaði 16 ára gamall í búðinni hjá Jóni Bjarnasyni afabróður sínum og rak seinna veitinga- og verslunarstaðinn Vegamót til fjölda ára.

Hannes lauk Landspróf frá héraðskólanum á Reykholti.

Þau eru fá verkefnin sem Hannes hefur ekki komið að í sinni heimabyggð. Hann hefur starfað í rúma hálfa öld með leikfélaginu Baldri, lengst af sem formaður en líka tekið þátt í ótal leiksýningum og þá í eftirminnilegum hlutverkum.

Hann hefur einnig tekið virkan þátt í íþróttalífi Bíldudals og setið í stjórn íþróttafélagsins þar. Hannes hefur líka verið í mörgum kórum og söngsveitum. Bíldudalskirkja og velferð hennar hefur alla tíð verið Hannesi hugleikin en hann er sóknarnefndarformaður við Bíldudalskirkju.

Fjölskylda:

Eiginkona Hannesar er Þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir frá Patreksfirði og eiga þau 4 börn og 17 barnabörnum og 6 langafa-og ömmubörn.

Helga Bjarnadóttir

Helga er fædd og uppalin á Litlu Eyri við Bíldudal. Hún hefur starfað við leikskóla á Patreksfirði í yfir 40 ár. Helga var leikskólastjóri Leikskóla Vesturbyggðar  frá 1997 til 2017 og stýrði þá af miklum skörungsskap bæði Arakletti á Patreksfirði og Tjarnarbrekku á Bíldudal og færði leikskólastarf í Vesturbyggð til nútímakennsluhátta. 

Helga lauk  verslunarprófi og er með BEd próf í leikskólafræðum sem hún lauk samhliða vinnu.

Helga sat í sveitarstjórn Patreksfjarðarhrepps í tvö kjörtímabil. Hún hefur starfað með Kvenfélaginu Sif í 44 ár og verið þar formaður í fjölda mörg ár af mikilli elju. Þá hefur Helga einnig verið formaður Sambands vestfirskra kvenna.

Eiginmaður Helgu er Úlfar Thoroddsen og eiga þau 3 syni og 5 barnabörn.

Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is