Íbúafundur á Bíldudal

Þriðjudaginn 3. september standa Byggðastofnun og Vesturbyggð fyrir íbúafundi á Bíldudal, í samstarfi við AtVest  og Fjórðungssamband Vestfirðinga.    

 

Fundurinn verður haldinn í Baldurshaga og stendur frá kl. 17 – 21.  Boðið verður upp á súpu og brauð og  það verður kaffi á könnunni. 

 

Fundurinn er sá fyrsti í röð íbúafunda og –þinga í „Brothættum byggðum“, verkefni Byggðastofnunar, á Bíldudal og í Breiðdalshreppi og Skaftárhreppi.  Verkefnið byggir á reynslunni af sambærilegu verkefni á Raufarhöfn sem staðið hefur síðastliðið ár.  Yfirskrift verkefnisins er „Bíldudalur – samtal um framtíðina“. 

 

Staðan á Bíldudal er sérstök, að því leyti að þar eru uppi áform um mikla uppbyggingu í tengslum við laxeldi.  Í ljósi fólksfækkunar síðustu ár og samdráttar í þjónustu, vaknar þó sú spurning hvernig samfélagið fari í gegnum óvissu- og biðtímann, þar til uppbygging hefst.  Markvissri samvinnu við íbúa er m.a. ætlað að bregðast við þessari stöðu. 

 

Til stóð hjá Vesturbyggð að halda íbúafund um skipulagsmál og var ákveðið að slá þessum tveimur fundum saman, kynningu á byggðaþróunarverkefninu og kynningu og umræðu um skipulagsmál og uppbyggingu. 

 

Tveggja daga íbúaþing verður svo haldið á Bíldudal helgina 28. – 29. september. 

 

Í stýrihópi vegna Bíldudalsverkefnisins sitja frá Byggðastofnun, Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri, Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður og Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sérfræðingur á þróunarsviði.  Einnig Aðalsteinn Óskarsson frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Shiran Þórisson frá AtVest og Ása Dóra Finnbogadóttir, fulltrúi íbúa á Bíldudal.  Ráðgjafi er  Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf, sem hefur sérhæft sig í samráði og þátttöku almennings.    


Fundarefni
* Kynning og umræða um mögulega uppbyggingu á Bíldudal.
* Kynning á lýsingu vegna aðalskipulagsbreytingar, sbr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sjá bakhlið.
* Kynning á verkefni Byggðastofnunar, „Brothættar byggðir“.
* Hvaða árangur viljum við sjá og af hverju höfum við áhyggjur?

Ávörp og kynningar
* Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar
* Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar
* Óskar Örn Gunnarsson, skipulagsfræðingur hjá Landmótun
* Ármann Halldórsson, forstöðumaður tæknideildar Vesturbyggðar
* Fundarstjórn: Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf

Hvað verður gert með skilaboð fundarmanna?
Bæjarstjórn hyggst hlusta á og viðurkenna áhyggjuefni og metnaðarmál sem fram koma. Í kjölfarið verða gefnar upplýsingar um hvernig unnið var úr skilaboðum.

Boðið verður upp á súpu og brauð, kaffi á könnunni.
Þetta er fyrsti áfanginn í vinnu með íbúum um málefni Bíldudals,
næst verður svo haldið tveggja daga íbúaþing 28. – 29. september.

Taktu þátt, hafðu áhrif!

Fundurinn á Bíldudal er opinn öllum sem láta sig þróun byggðar á svæðinu varða og vonast fundarboðendur til góðrar þátttöku. 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is