Íbúum Vesturbyggðar fjölgar

Alls bjuggu 941 einstaklingur í Vesturbyggð um síðustu áramót og hafa þeir ekki verið fleiri frá árinu 2006. Fjölgað hefur um 51 íbúa frá árinu 2011 eða sem nemur 6%. Þá bjuggu 890 einstaklingar í sveitarfélaginu og höfðu aldrei verið færri. Árið 2006 bjuggu 964 íbúar í Vesturbyggð, en þá þegar hafði íbúum fækkað jafnt og þétt árin á undan. Til samanburðar má nefna að árið 1998 bjuggu 1.254 íbúar í Vesturbyggð. Vesturbyggð hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár, en mesta fólksfjölgun á landinu síðastliðna tólf mánuði var á Vestfjörðum og á sú fjölgun uppganginum í Vesturbyggð mikið að þakka.

Fjölgunin á milli ára er merkjanleg í báðum stærstu byggðakjörnum Vesturbyggðar, Patreksfirði og á Bíldudal. Á Patreksfirði má merkja 3% fjölgun á milli áranna 2012 og 2013, en við upphaf þessa árs voru íbúar bænum 651. Íbúar sem búa utan Patreksfjarðar og tilheyra póstnúmeri 451, voru 104 í upphafi ársins en voru 95 í upphafi ársins 2012. Íbúum á Bíldudal fjölgaði um 4% á síðasta ári frá árinu áður og eru þeir nú 200 talsins. Íbúar í plássinu hafa ekki verið fleiri síðan árið 2010, en þá bjuggu 209 íbúar á Bíldudal. Í upphafi áranna 2011 og 2012 bjuggu 187 og 192 íbúar á Bíldudal.

Talsverð framkvæmdagleði ríkir í sveitarfélaginu og má þar nefna framkvæmdir við ofanflóðavarnir, byggingu nýs hótels auk þess sem kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal hefur unnið að stækkun verksmiðjunnar. Sveitarfélagið Vesturbyggð var stofnað árið 1994 þegar Barðastrandarhreppur, Rauðasandshreppur, Bíldudalshreppur og Patrekshreppur sameinuðust.

frétt frá www.bb.is

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is