Jólasúpufundur Skorar þekkingarseturs

Katharína Sommermeier, Gestur Rafnsson og Rafn Hafliðason
Katharína Sommermeier, Gestur Rafnsson og Rafn Hafliðason
Jólasúpufundur Skorar þekkingarseturs var haldinn í gær í Sjóræningjasetrinu á Patreksfirði.

Eigendur Sjóræningjahússins ákváðu að öll innkoma vegna fundarins rynni óskipt til hjálparstarfs og söfnuðust alls um hundrað þúsund krónur á fundinum. Sr. Leifur Ragnar Jónsson, sóknarprestur á Patreksfirði, tók við söfnunarfénu og mun sjá um úthlutun þess. Í þakkarræðu sagði Sr. Leifur Ragnar að þótt mikið hefði verið fjallað um græðgi í íslensku samfélagi á síðustu mánuðum þá væri það nú samt kærleikurinn sem væri einkenni íslensk samfélags og væri þessi söfnun eitt margra dæma þar um.

Kvartett Camerata sem í eru Elzbieta og María Jolanta Kowalczyk, Trausti Þór Sverrisson og Magnús Ólafs Hansson söng jólalög, Alda Davíðsdóttir flutti hugleiðingu um tengsl jólasveina og sjóræningja, Guðrún Eggertsdóttir las jólasögu og Katharína Sommermeier, Gestur Rafnsson og Rafn Hafliðason fluttu jólalagið Jólin alls staðar.

Frá því starfsfólk í Skor þekkingarsetri hóf fyrsta súpufundinn á suðursvæði Vestfjarða hafa verið haldnir nítján fundir. Jólafundurinn var því sá tuttugasti í röðinni.


Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is