Lagafrumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjald

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Bæjarstjórn Vesturbyggðar gerir alvarlegar athugasemdir við þau lagafrumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjald sem nú liggja fyrir Alþingi.

Sérstaklega er gerð athugasemd við lagafrumvarp nr. 658 um veiðigjöld. Bæjarstjórn Vesturbyggðar krefst þess af Alþingi að reiknuð verði út af hlutlausum aðila áhrif fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða og viðbótar skattlagningar á útgerðir. Kannað verði rækilega hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa í för með sér á samfélögin og útgerðirnar, og þá sérstaklega á þá landshluta sem verið hafa í varnarbaráttu áratugum saman og þær niðurstöður verði kynntar opinberlega áður en lengra er haldið.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir á greinargerð óháðra sérfræðinga, þeirra Þórodds Bjarnasonar og Daða Más Kristóferssonar sem fylgir lagafrumvörpunum og unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Sú greinargerð ætti að hvetja stjórnvöld til að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarbyggðir landsins. Sérfræðingarnir búast við „umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum" og segja að áformuð lagasetning muni verða „mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja". Enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa „kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum."

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur nú þegar fengið ráðgjafa og endurskoðenda-fyrirtækið KPMG til að vinna álit sem er meðfylgjandi þessari umsögn, á því hvaða áhrif boðaðar lagabreytingarnar kunni að hafa á Vesturbyggð. Niðurstaðan er sú a.m.k. 220 milljónir fari í greiðslu á veiðigjaldi og kvótastaðan muni minnka. Þá eru líkleg viðbrögð útgerðarinnar og tengdra fyrirtækja að a.m.k. 6-8 starfsmönnumverði sagt upp, auk ófyrirsjáanlegra afleiddra áhrifa. Telur KPMG að þetta sé mjög varlega áætlað. Bein áhrif á bæjarsjóð vegna útsvarslækkunar eru metin allt að 19 milljónir og er það líka mjög varlega áætlað. Með þessu má álykta að tæpar 300 milljónir flytjist frá Vesturbyggð til Reykjavíkur. Reynslan hefur sýnt að heldur ólíklegt er að þeir fjármunir skili sér til baka. Þá meta stjórnendur stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna í Vesturbyggð það svo að rekstur þeirrar þoli ekki margföldun veiðigjalds og að þau verði gjaldþrota á mjög stuttum tíma ef greiða á allt að 70% af rekstrarafgangi til ríkisins.

Vandséð er hvernig þessum frumvörpum er ætlað að styðja við áform um að byggja upp öflugri samfélög á landsbyggðinni.
Bæjarstjórn Vesturbyggðar bendir jafnframt á ályktun fjórðungsþings Fjórðungssambands Vestfirðinga árið 2011 um auðlindagjald, sem segir:

 

„56. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið í Bolungarvík 2.-3. september 2011 skorar á Alþingi að tryggja að það auðlindagjald sem nú er innheimt af vestfirskum aflaheimildum og öll aukning þess renni til uppbyggingar atvinnulífs á Vestfjörðum. Auðlindagjaldið renni til rannsókna, nýsköpunar og í fjárfestingarsjóð fyrir vestfirskar byggðir."

 

Útreikningar KPMG leiða í ljós að 3-12 milljónir komi í hlut Vesturbyggðar af útleigu aflaheimilda. Sú upphæð er aðeins brota brot af þeim fjármunum sem tapast úr samfélaginu við lagabreytinguna.

 

Bæjarstjórn Vesturbyggðar varar stjórnvöld við að taka vanhugsaðar ákvarðanir sem geti stuðlað að hruni í sjávarútvegi og tengdum greinum, atvinnuleysi og þar með fólksflótta á landsbyggðinni. Þau varnaðarorð sérfræðinga sem fylgja lagafrumvörpunum og þeir útreikningar óháðra aðila sem sveitarfélögin hafa látið vinna ættu að vera ærin ástæða fyrir alþingismenn að endurskoða frumvörpin, frekar en að stuðla að lögfestingu þeirra og stuðla þannig að „umhleypingum" með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins. Má í því sambandi nefna mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingagetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með en minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er."

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is