Málþing félagsmálastjóra á Íslandi

Samband íslenskra sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga
Málþing félagsmálastjóra á Íslandi verður haldið í Salnum í Kópavogi, föstudaginn 20. nóvember nk. kl. 13:00-17:00. Yfirskrift málþingsins er Vordraumar og vetrarkvíði - félagsþjónusta í andstreymi. Ráðstefnustjóri er Jón Björnsson, fv. félagsmálastjóri, sálfræðingur og rithöfundur. Málþingið er öllum opið sem láta sig velferðarmál varða. 

Sveitarfélögin og félagsþjónusta þeirra hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna efnahagsástandsins, aukin eftirspurn er eftir þjónustu, nýir notendur og ný viðfangsefni knýja dyra, þeir sem fyrir voru eru verr settir, starfsmenn hafa margir orðið fyrir áföllum eins og notendur. Það hriktir í þekktum aðferðum og bjargir eru af skornari skammti en áður.

 

Samtök félagsmálastjóra á Íslandi fagna aldarfjórðungsafmæli um þessar mundir og vilja á þeim tímamótum beina sjónum að tækifærum sem þessi staða færir, horfa fram á veginn í stað þrenginga.

 

Spurt er um möguleika sveitarfélaganna og félagsþjónustunnar, um þýðingu hjartans fyrir siðferðislífið og hvers vegna er ekki nóg að vera bara rökvís, gáfaður og klár, um skáldlega sýn á glímuna við reiðina og leit stjórnandans að árangri á tímum breytinga, auraleysis og aðhalds, um starfsmanninn sem situr í súpunni , um auð einstaklingsins og mikilvægi réttlætis og jafnræðis við endurreisn farsæls samfélags.

 

Sjá dagskrá málþingsins!

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is