Mat á samfélagsáhrifum nýs vegar um Dynjandisheiði

Nokkrir möguleikar á breyttu vegakerfi á sunnanverðum Vestfjörðum með tilkomu nýs vegar um Dynjandisheiði
Nokkrir möguleikar á breyttu vegakerfi á sunnanverðum Vestfjörðum með tilkomu nýs vegar um Dynjandisheiði
Rannsókna og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði mat á samfélagsáhrifum nýs vegar um Dynjandisheiði fyrir Vegagerðina.

Markmið rannsóknarinnar samkvæmt verksamningi var að meta áhrif af tilkomu heilsársvegar yfir Dynjandisheiði á samfélag og byggð á því svæði sem rannsókn þessi tekur til. Kemur ekki á óvart að margvísleg samfélagsleg áhrif yrðu með tilkomu bættra samganga.

 

Gefin forsenda er að jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, svokölluð Dýrafjarðargöng séu samtímis til staðar. Þannig komast á heilsárs-samgöngur milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða.

 

Eftirfarandi er úr niðurstöðum matsins:

  • Framhaldsnám er afar lítið sótt frá sunnanverðum Vestfjörðum til Ísafjarðar en útibú Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði hefur verið í mikilli sókn. Bættar samgöngur gætu eflt Menntaskólann á Ísafirði en þar sem hefð hefur skapast fyrir skólasókn annað gæti slík breyting tekið langan tíma.
  • Tekjur einstaklinga á svæðinu eru að meðaltali lakari en á landinu í heild en eftir efnahagshrunið hefur orðið hagvöxtur í landshlutanum eftir langt skeið stöðnunar eða samdráttar. Áberandi er hve þjónusta leggur minna til framleiðslunnar en í öðrum landshlutum þannig að þarna virðast vera sóknarfæri. Samgöngubæturnar munu smám saman auka þjónustusókn innan landshlutans og þannig renna styrkari stoðum undir margvíslega starfsemi innan hans.
  • Verð fasteigna á Patreksfirði er lægst meðal 25 þéttbýlisstaða á landinu í árslok 2009. Þess má vænta að auðveldari sókn í ýmsa þjónustu frá sunnanverðum Vestfjörðum til Ísafjarðarsvæðisins muni hafa jákvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn þótt ekki sé unnt að bregða tölulegum mælikvarða á þau.
  • Heilsársvegur milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar verður tæplega til þess að gerðar verði miklar breytingar á mannahaldi heilbrigðisstofnana. Til þess verður vegalengdin of mikil. Einhver samlegðaráhrif í yfirstjórn gætu þó komið til greina.
  • Nýr vegur yfir heiðina myndi varla hafa teljandi áhrif á rekstur flugvalla og flugsamgöngur á athugunarsvæðinu.

 

Vegur um Dynjandisheiði, mat á samfélagsáhrifum, júní 2010 (PDF 2,17 MB)

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is