Mikið aðhald og endurskipulagning skilar árangri

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar 2012 er samþykkt af bæjarstjórn.

 • Tekjuaukning Vesturbyggðar milli ára vegna fólksfjölgunar og aukinna umsvifa.
 • Reksturinn fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 84 milljónir.
 • Tap samstæðunnar áætlað 9 milljónir kr. á árinu. Mikill viðsnúningur frá fyrra ári.
 • Veltufé frá rekstri áætlað 93 milljónir.
 • Skuldir Vesturbyggðar 1340 milljónir kr. Skuldir verða greiddar niður um 90 milljónir kr. á árinu.
 • Fjárfestingar eru áætlaðar 254 milljónir. Helsta verkefnið er uppbygging snjóflóðagarðs á Patreksfirði.

 

Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir árið 2012 var samþykkt í bæjarstjórn Vesturbyggðar í gær, 14. desember. Bæjarstjórnin stendur sameiginlega að áætluninni og hefur hún verið unnin í nánu samstarfi við deildarstjóra og starfsmenn Vesturbyggðar. Líkt og í fyrra var íbúum einnig boðið að koma að gerð fjárhagsáætlunarinnar. Fyrr á þessu ári gerði Vesturbyggð samkomulag við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga um aðstoð við lausn á skuldavanda sveitarfélagsins.

 

Unnin var úttekt á rekstrinum og gerðar tillögur að breytingum til að lækka kostnað. Við fjárhagsáætlunarvinnuna var tekið tillit til þeirra tillagna. Fjárhagsáætlunin er því afrakstur sameiginlegrar vinnu allra þessara aðila.

 

Á síðasta ári var gripið til mikils aðhalds í rekstri og áfram er gert ráð fyrir mikilli ráðdeild eins og sést á niðurstöðu rekstarins.

 

Unnið verður að frekari skipulagsbreytingum og fjárhagslegri endurskipulagningu alls sveitarfélagsins. Og enn verður reynt að ná samningum við lánadrottna um hagkvæm lánskjör sem enn hefur ekki gengið þrátt fyrir mikla vinnu í þeim efnum og þá má ætla að fjármagnskostnaður kunni að lækka eitthvað. Þá verða gjaldskrár hækkaðar og verkefnum forgangsraðað.

 

Sérstök áhersla verður lögð á viðhald eigna og breytingar til að lækka orkukostnað. Öll grunnþjónusta verður varin.

 

Þrátt fyrir erfiða stöðu er bæjarstjórn Vesturbyggðar bjartsýn á framtíð sveitarfélagsins enda er atvinnuástand mjög gott og töluverð fjölgun í sveitarfélaginu eftir áratuga fækkun. Heildarskuldir sveitarfélagsins nema hinsvegar 1340 milljónum króna og eru þær afar þungur baggi í rekstri lítils sveitarfélags sem hefur verið í mikilli vörn. Í Vesturbyggð búa tæplega þúsund manns.

 

Helstu lykiltölur úr rekstrinum

 • Reksturinn fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 84 milljónir. Var 27 milljónir í fjárhagsáætlun 2011.
 • Fjármagnsliðir eru áætlaðir 93 milljónir. Voru 73 milljónir í fjárhagsáætlun 2011.
 • Rekstrarniðurstaðan er neikvæð um 9 milljónir en var neikvæð um 46 milljónir í fjárhagsáætlun 2011.
 • Veltufé frá rekstri er áætlað 93 milljónir kr. Var 41 milljón kr. í fjárhagsáætlun 2011


Útsvar og fasteignagjöld

 • Útsvarsprósenta verður óbreytt frá fyrra ári. Álagningarstuðull fasteignaskatts á A-flokk húsnæðis (íbúðir) hækkar í 0,525%, vatnsgjald á íbúðir hækkar í 0,400% og fráveitugjald hækkar í 0,330%. Aðrir álagningarstuðlar fasteignagjalda verða óbreyttir.

 

Gjaldskrárbreytingar

 • Almennt hækka gjaldskrár um 7% frá og með 1. janúar 2012 með eftirfarandi undantekningum:
 • Gjaldskrá leikskóla hækkar um 7% og tónlistarskóla um 15% frá og með 1. janúar 2012. Gjaldskrá leikskóla hefur hefur ekki hækkað í tvö ár.
 • Taxtar sorpgjalda hækka um 10%.
 • Taxtar hafnargjalda og tekjumörk vegna lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds til elli- og örorkulífeyrisþega hækka um 5%.
 • Gjaldskrá fyrir staka tíma í sund og íþróttahús hækkar ekki en áskriftarkort hækkar um 8%.
 • Tekin verður upp ný gjaldskrá fyrir heimsendingu matar og fyrir tómstundastarf aldraðra.


Nánari upplýsingar veitir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, 864-2261, asthildur@vesturbyggd.is.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is