Milljarða tjón af völdum snjóflóðanna árið 1995

Efnahagslegt tjón af völdum snjóflóðsins sem féll í Súðavík árið 1995 var 1.040 milljónir króna samkvæmt nýútgefinni skýrslu umhverfisráðuneytisins.

Efnahagslegt tjón af snjóflóðinu á Flateyri sama ár var 1.270 milljónir. Hvort um sig námu tjónin 1-2% af vergri landframleiðslu Íslendinga. Þá olli krapaflóð á Patreksfirði árið 1983 um 50 milljónum króna tjóni. „Á síðustu 3-4 áratugum hafa náttúruhamfarir átta sinnum valdið efnahagslegu tjóni yfir milljarð kr. að núvirði, þar af sex sinnum síðan 1990. Þar koma við sögu eldgos, jarðskjálftar, jökulhlaup, snjóflóð og óveður. Sjávarflóð hafa einnig valdið hundruða milljóna króna tjóni", segir í skýrslunni um stöðu umhverfismála hér á landi. Þar kemur fram að slysum af völdum óveðra á landi hefur fækkað mjög frá aldamótunum 1900 en ekki slysum af völdum ofanflóða.

 

Frá aldamótunum 1900 hafa yfir 4 þúsund Íslendingar farist í sjóslysum, hundruð urðu úti eða fórust með öðrum hætti í óveðrum á landi, tæplega 200 létust í snjóflóðum og skriðuföllum en mun færri af öðrum orsökum. Banaslysum á sjó hefur fækkað mikið á síðustu áratugum og er árið 2008 fyrsta árið í manna minnum sem enginn fórst til sjós.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is