Minnisvarði um Gísla Jónsson afhjúpaður

Gísli Jónsson
Gísli Jónsson
Síðast liðinn laugardag var afhjúpaður minnisvarði á Bíldudal um Gísla Jónsson.

Gísli er flestum kunnur af störfum sínum sem framkvæmdamaður, stjórnmálamaður, þingmaður Barðstrendinga og Vestfirðinga og rithöfundur.

 

Gísli var fæddur í Litlabæ á Álftanesi þann 17. ágúst 1889 og lést þann 7. október 1970. Árið 1901 fluttu foreldrar hans til Arnafjarðar í leit að betra lífi þar sem faðir Gísla lagði meðal annars stund á verslunarstörf. Þá var Gísli 12 ára. Fjölskyldan flyst aftur suður 11 árum seinna.

 

Gísli nam járnsmíði á Ísafirði 1908-1909, vélsmíði í Englandi 1914 og Kaupmannahöfn 1915, stundaði nám við vélfræðideild Stýrimannaskólans 1913-1914, við Vélstjóraskóla Íslands 1915-1916 og lauk prófi frá honum með skírteini nr. 1.

 

Gísli starfaði sem kyndari og vélstjóri á sjó frá 1910. Hann var skipaður umsjónarmaður skipa og véla árið 1924 og sá um smíði allra nýsköpunartogara ríkissjóðs á árunum 1945 til 1950. Jafnframt var hann framkvæmdastjóri ýmissa félaga og fyrirtækja í Reykjavík og á Bíldudal frá 1933.

 

Gísli var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir alþingi og átti sæti í fjölmörgum nefndum. Gísli var forseti Efrideildar frá 1953 til 1956 og 2. varaforseti Efrideildar frá 1942 til 1943 og aftur 1946 til 1947.

 

Gísli efnaðist vel og stofnsetti ýmis fyritæki, þ.á.m. fyrirtækin Gísli Jónsson & co og Bifreiðar- og landúnaðarvélar. Þegar hann var kominn fast að fimmtugu keypti hann Bíldudalseignir. Gísli rak verslun og útgerð á Bíldudal, reisti rækjuvinnslu og fiskimjölsverksmiðju. Hann var upphafsmaður að Matvælaiðju sem framleiddi m.a. hinar landsfrægu Bíldudals grænar baunir og Bíldudals handsteiktar kjötbollur. Efir mikið uppbyggingarstarf á Bíldudal afhenti Gísli Suðurfjarðarhreppi Bíldudalseignir sem urðu þá í fyrsta sinn almenningseign.

 

Gísli var 74 ára þegar hann lét af þingmennsku. Alla tíð vann hann ótrauður í því að byggja upp kjördæmi sitt og verja kjör fólksins.

 

Við afhjúpun minnisvarðans flutti Margrét Haraldsdóttir, kennari og sonardóttir Gísla, ávarp. Í ávarpi hennar kom m.a. eftirfarandi fram:

 

Fyrir hönd aðstandenda Gísla Jónssonar, fyrrverandi alþingismanns, vil ég þakka velunnurum þessa verkefnis fyrir elju þeirra og dugnað. Einnig Vesturbyggð sem styrkti verkefnið. Þá vil ég sérstaklega nefna Nönnu Sjöfn Pétursdóttur, Jón Þórðarson og Jón Kr. Ólafsson. Jón Kr. Ólafsson hefur í fjölda ára barist fyrir því að reistur yrði minnisvarði um Gísla Jónsson á Bíldudal og hann þannig heiðraður fyrir störf sín. Með þessum minnisvarða er ævistarfi Gísla Jónssonar mikill sómi sýndur. Ég er sannfærð um að hann kynni að meta þetta því að hjarta hans sló ætíð fyrir Bílddælinga.

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is