Mótmæli vegna skerðinga á ferðum ferjunnar Baldurs

Vesturbyggð
Vesturbyggð
Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum fækkunum ferða ferjunnar Baldurs yfir Breiðafjörð, en skv. fyrirliggjandi upplýsingum stendur til að skrifa undir samning við Sæferðir ehf. þar sem ferðir verði 6 daga vikunnar í stað 7, eins og verið hefur.

 

Bæjarstjórnin hefur sent samgönguráðherra bréf þar sem segir:

 

Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með ástandi vega á Íslandi, að Vestfjarðavegur 60 sem tengir V-Barðastrandarsýslu við þjóðvegakerfi landsins er einn sá versti yfirferðar, ef ekki sá versti. Stöðug áföll, af mannavöldum, hafa tafið eðlilega uppbyggingu vegarins.

 

Þegar samningur var gerður við Sæferðir í byrjun árs 2001 um siglingar Baldurs yfir Breiðafjörð, var reiknað með að áætluðum vegabótum á sunnanverðum Vestfjörðum yrði lokið á árinu 2003!!!!! Þeim er ekki lokið enn, og það er árið 2009. Það er því augljóst að það munu líða nokkur ár þar til þeim líkur.

 

Þrátt fyrir áðursend mótmæli við fyrirhugaða skerðingu ferða Baldurs, hefur verið talað fyrir daufum eyrum. Með það í huga að íbúar og fyrirtæki í útflutningi ættu að eiga sama rétt og aðrir landsmenn til þess að komast með eðlilegum hætti til og frá höfuðborgarsvæðinu, þá er það gríðarleg ósanngirni að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur í sparnaðaraðgerðum í þessum málaflokki.

 

Það er verið að ræða um rúmar 14 mkr. á ársgrunni í sparnað vegna þessarar skerðingar. Það eru um 14,3% af heildarsparnaði á framlagi til Sæferða, þegar lagt er upp með um 10% heildarsparnað hjá Vegagerðinni. Sérstaða þessa svæðis er það mikil, vegna mjög óöruggra vegasamgagna yfir vetrarmánuðina og því er óréttlætið óskiljanlegt. Flogið er hingað 6 sinnum í viku og fyrirhugað er að fækka snjómoksturdögum um einn á Vestfjarðavegi 60.

 

Hvers eiga íbúar og þeir sem eru í fyrirtækjarekstri að gjalda? Er ekki nóg að þurfa að aka vegleysur á stórum hluta Vestfjarðavegar 60, að það þurfi að skerða ferðir Baldurs sem við lítum á sem okkar lífsbjörg þar til viðunandi vegasamband verður komið á?

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is