Námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja

Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða munu standa fyrir námskeiðinu sóknarbraut á Patreksfirði.

Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja þar sem þátttakendur vinna með eigin hugmyndir eða fyrirtæki.

 

Grundvöllur námskeiðsins
Námskeiðið Sóknarbraut er námskeið um rekstur fyrirtækja þar sem áhersla er lögð á markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar. Kennslan fer fram á fræðilegum og faglegum grunni og á námstímanum vinna þátttakendur að ákveðnu verkefni sem byggir á þeirra eigin viðskiptahugmynd.

 

Fyrirkomulag
Hugmyndin að baki námskeiðinu byggir á að brúa bilið á milli hugmyndar og markvissrar framkvæmdar með því að leiðbeina og þjálfa þátttakendur í því að takast á við frumkvöðlastarf, stjórnun og rekstur fyrirtækis. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, þjálfun, viðtölum og verkefnum sem tengjast þeirri hugmynd sem hver einstaklingur vinnur að hverju sinni. Meðal verkefna sem unnin verða eru markaðsáætlun, kynning á viðskiptahugmynd, skipulagning kynningarbæklings og skipulagning heimasíðu. Námskeiðið er alls 40 kennslustundir sem skiptast í 10 hluta auk þriggja opinna vinnusmiðja sem þátttakendur geta mætt í og unnið að sínu verkefni undir handleiðslu leiðbeinanda. Hver hluti er fjórar klst. eða einn eftirmiðdagur. Stefnt er að því að námskeiðið hefjist 3. september og fer kennsla fram í Skori Þekkingarsetri á Patreksfirði.

 

Fyrir hverja?
Námskeiðið Sóknarbraut er fyrir núverandi og verðandi stjórnendur minni fyrirtækja. Námskeiðið hentar vel einstaklingum sem starfa sem stjórnendur í minni fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa hug á að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd eða stofna eigið fyrirtæki. Sóknarfæri er opið jafnt körlum sem konum og ekki er gerð krafa um sérstaka undirbúningsmenntun. Umsóknareyðublöð má finna á vefsíðu Impru (www.impra.is). Skráningarfrestur er til 28. ágúst.
Einnig hafa nemendur aðgang að handleiðslu Guðrúnar Eggertsdóttur atvinnuráðgjafa hjá AtVest á meðan námskeiðinu stendur. Þátttakendur á námskeiðinu njóta ennfremur handleiðslu ráðgjafa Impru á námskeiðstímabilinu og áfram að því loknu en slík þjónusta er hluti af reglulegri starfsemi Impru.

 

Nánari upplýsingar og skráning
Nánari upplýsingar má nálgast hjá Selmu Dögg Sigurjónsdóttur á netfanginu selma@nmi.is eða í síma 460 7975. Skráning fer fram á heimasíðu Impru, www.impra.is.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is