Níundi bekkur Patreksskóla sigrar

Heimabyggðin mín
Heimabyggðin mín
Nemendur í 9. bekk Patreksskóla urðu í fyrsta sæti í samkeppninni Heimabyggðin mín, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir, sem haldin var samtökunum Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni.

 

Hugmynd nemendanna snýr að endurbótum á húsnæði hraðfrystihússins Straumness á Patreksfirði, en það er löngu hætt starfsemi og liggur nú undir skemmdum. Hraðfrystihúsið var teiknað árið 1938 af húsameistara ríkisins og þykir hið glæsilegasta hús. Í deiliskipulagi Vesturbyggðar stendur til að rífa húsið, en hugmyndir nemendanna gætu þó hróflað við deiliskipulaginu.

 

Hugmynd barnanna, sem ber titilinn „Það er allt í lagi að láta sig dreyma", gengur út á að breyta hraðfrystihúsinu í samkomu- og frístundaheimili fyrir unglinga. Hugmyndin var útfærð í riti, með ljósmyndum og á myndbandi.

 

Að sögn Rannveigar Haraldsdóttur umsjónarkennara barnanna fékk verkefnið frábæra umsögn frá dómnefndinni og blikur eru á lofti um að endurskoða áætlanir um að rífa húsið vegna hugmyndarinnar. „Ég tel að þetta geti haft áhrif á deiliskipulagið," segir Rannveig.

 

Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp á verðlaunaafhendingunni og Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, verndari verkefnisins og fyrrum fegurðardrottning, flutti ávarp til verðlaunahafa. Annað sæti í keppninni hreppti Reykhólaskóli, en í þriðja og fjórða sæti voru Grunnskólinn á Raufarhöfn og Lækjarskóli í Hafnarfirði. Verðlaunaafhendingin fór fram í Norræna húsinu 15. maí síðastliðinn.

 

Nemendur 9. bekkjar Patreksskóla eru átta talsins, en Rannveig segist mjög stolt af þeim. „Það er búið að dæma byggð á Vestfjörðum til dauða eftir fimmtíu ár. Er þá ekki dæmigert að unglingarnir rísi upp og bjargi okkur?"

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is