Nýtingaráætlun strandsvæðis Arnarfjarðar

Dæmi um úrvinnslu
Dæmi um úrvinnslu
Verkefnið, nýtingaráætlun strandsvæðis Arnarfjarðar, hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið.

 

Verkefnið byggir á samþykkt Fjórðungsþings Vestfirðinga frá árinu 2008 og 2009 en einnig hafa stjórnvöld lýst áhuga á framkvæmd og hagnýtingu niðurstaðna til mótunar stefnu um nýtingu strandsvæðis almennt.

 

Hér um að ræða fyrsta verkefni sinnar tegundar sem unnið er á Íslandi. Verkefnið er hluti af stærra verkefni sem miðar að því að gera nýtingaráætlun fyrir alla Vestfirði en vinna við það hófst árið 2009 með skráningu á núverandi nýtingu strandsvæðis við Vestfirði.

 

Niðurstöður tilraunaverkefnisins munu nýtast í áframhaldandi vinnu við nýtingaráætlun fyrir Vestfirði. Mótun og framkvæmd verksins, hefur verið unnin í samstarfi Fjórðungssambands Vestfirðinga, Háskólaseturs Vestfjarða og Teiknistofunnar Eikar.

 

Meginmarkmið verkefnisins er að gera samþætta nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Arnarfjarðar og samræma stjórnun og nýtingu þessa svæðis í samvinnu við hagsmunaaðila. Verkefninu er ætlað að bæta nýtingarmöguleika strandsvæðis í Arnarfirði og stuðla að sjálfbærri nýtingu til hagsbóta fyrir samfélag, efnahagslíf og umhverfi. Jafnframt er ætlunin að stuðla að nýsköpun á sviði umhverfis- og auðlindastjórnunar á strandsvæðum.

 

Unnið verður eftir ákveðnu verklagi sem m.a. felur í sér nána samvinnu við íbúa og hagsmunaaðila. Settur verður á fót hópur hagsmunaaðila og fulltrúa sveitarstjórna Vesturbyggðar, Tálknafjarðar og Ísafjarðarbæjar og verður hlutverk hans að vinna áætlunina í samvinnu við ráðgjafa.

 

Framkvæmd verkefnisins nýtur fjárstuðnings umhverfisráðuneytis, iðnaðarráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Vaxtarsamnings Vestfjarða og Náttúruverndarsjóðs Pálma Jónssonar, stofnenda Hagkaups.

 

Nánari upplýsingar um framkvæmd og bakgrunn verkefnisins má finna á vefsíðu verkefnisins: www.fjordungssamband.is/nytingaraaetlun

 

Meðfylgjandi mynd er dæmi um úrvinnslu. Hún sýnir frumniðurstöður úr forverkefni um nýtingu strandsvæðis Vestfjarða, niðurstöður vinnufundar á Patreksfirði í nóvember 2009.


Málþing um nýtingu strandsvæðis Arnarfjarðar verður haldið í félagsheimilinu Baldurshaga, Bíldudal, sunnudaginn 14. nóvember n.k., á milli kl. 13.15 og 16.15. Í framhaldi málþingsins verður haldinn fyrsti fundur starfshóps sem mun vinna að verkefni um gerð nýtingaráætlunar fyrir strandsvæði Arnafjarðar.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is