Oddi og Þórsberg uppfylla kröfur um sjálfbæra nýtingu fiskistofna

Vottunin staðfest með útgáfu vottorða 23. júní 2011
Vottunin staðfest með útgáfu vottorða 23. júní 2011
Oddi og Þórsberg hafa fengið vottun um að þorsk- og ýsuveiðar útgerðanna með handfærum, línu og dragnót uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um sjálfbæra nýtingu fiskistofna, skynsamlega stjórnun fiskveiða og tillitsemi við vistkerfi sjávar.

Þetta er fyrsta vottun sjálfbærra sjávarnytja á íslenskum fiskveiðum og fiskistofnum samkvæmt vottunarkerfi og viðmiðunarreglum MSC.

 

Vottunin kemur gegnum Sæmark sjávarafurðir ehf. sem er fiskútflutningsfyrirtæki er annast markaðssetningu sjávarafurða frá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum víðs vegar um landið, en tvö önnur útgerðarfyrirtæki tóku einnig þátt í verkefninu: Fiskvinnslan Íslandssaga hf. á Suðureyri og Hraðfrystihús Hellissands hf.

 

MSC vottun Sæmarks færir heim sanninn um að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur burði til að tryggja sjálfbærar fiskveiðar. Að baki liggur langt og ítarlegt matsferli sérfræðinga Vottunarstofunnar Túns.

 

Umhverfisvottun þriðja aðila er megin forsenda þess, að fiskafurðir frá Íslandsmiðum njóti sannmælis á erlendum mörkuðum, bæði í eftirspurn og útflutningsverðmæti.

 

Staðlar MSC byggja á viðmiðunarreglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgar fiskveiðar. MSC umhverfisvottunin staðfestir að fiskveiðar séu byggðar á sjálfbærri nýtingu fiskistofna, skynsamlegri stjórnun fiskveiða og tillitsemi við vistkerfi sjávar. Markmið MSC er að stuðla að bættri umgengni um auðlindir sjávar og að auka eftirspurn eftir umhverfisvottuðum sjávarafurðum.

 

Vottunin byggir á heildstæðu mati á ástandi fiskistofna, veiðiaðferðum og fiskveiðistjórnun. Vottuð neysluvara úr MSC vottuðum fiskveiðum getur borið vottunarmerki MSC.

 

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is