Pönk á Patró

Pönk á Patró
Pönk á Patró
Næstkomandi laugardag, þann 7. ágúst, verður Pönk á Patró haldið í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði í annað sinn í sumar.

 

Dagskráin er glæsileg en það er Amiina sem fetar í fótspor hljómsveitarinnar Pollapönks sem gerði góða ferð á Patreksfjörð 26. júní síðastliðinn. Tónlistarsmiðjan sló í gegn og Pöllapönk sömdu glænýtt lag með krökkunum sem var svo frumflutt um kvöldið þegar foreldrar mættu á kvöldtónleikana.

 

Amiina mun stjórna tónlistarsmiðju á sinn einstaka hátt en svo flytur hljómsveitin frumsamda tónlist sína við sígildar hreyfiklippimyndir Lotte Reiniger um þau Þyrnirós, Öskubusku og Aladdín. Kvikmyndunum verður varpað á tjald og tónlistin leikin undir. Það eru þær Sólrún Sumarliðadóttir, María Huld Markan Sigfúsdóttir og Edda Rún Ólafsdóttir sem eiga heiðurinn að þessu verkefni. Þær hafa farið víða með þetta ævintýralega prógramm og léku síðast 18. júlí á tónlistarhátíðinni Latitude fyrir fullum sal.

 

Hinn ísfirski 7oi mun spila á eftir Amiinu en hann hefur gert það gott með frumlegu raftónlistarpoppi, gefið út nokkrar afbragðsgóðar plötur og meðal annars selt tónlist sína til Japans. 7oi sem heitir réttu nafni Jóhann Friðgeir Jóhannsson er m.a. verslunarstjóri Eymundsson á Ísafirði. Hér má heyra nýtt efni eftir hann.


PÖNK Á PATRÓ II - Í Sjóræningjahúsinu Patreksfirði

 

Laugardaginn 7. ágúst - Amiina // 7oi

13:00 - 14:30 Tónlistarsmiðja fyrir börn og unglinga
14:30 - 15:00 Hressing fyrir káta krakka í boði Pönk á Patró
15:00 - 16:00 Amiina spilar undir myndum Lotte Reiniger

 

- Frítt fyrir börn og unglinga í tónlistarsmiðju og á tónleika

 

14:00 til 16:00 Foreldrapössun er í boði í Skjalborgarbíói á meðan
krakkar njóta tónlistar í Sjóræningjahúsinu en þar verður sýnd
kvikmynd Sigur Rósar, Heima.

 

20:00 Amiina leikur undir myndum Lotte Reiniger // 7oi spilar á eftir.
Aðgangseyrir 1000 kr. fyrir 15 ára og eldri. Gestir eru hvattir til
þess að mæta stundvíslega.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is