Prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar

Guðmundur Hálfdánarson
Guðmundur Hálfdánarson
Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur hefur verið skipaður í prófessorsstöðu við Háskóla Íslands sem tengd er nafni Jóns Sigurðssonar.

Hann segir það mikinn heiður að hljóta þetta embætti og telur að í því felist tækifæri til samstarfs Vestfirðinga og Háskóla Íslands sem geti orðið lyftistöng bæði fyrir rannsóknar- og fræðslustarf á Vestfjörðum og fyrir Háskóla Íslands.

„Það er mér mikill heiður að vera valinn til að gegna prófessorsstarfi sem ber nafn Jóns Sigurðssonar. Jón Sigurðsson er mér hugleikinn enda gegnir hann lykilhlutverki í sögu íslenskrar sjálfstæðisbaráttu og mótun íslenskrar þjóðernisvitundar sem hafa verið helstu viðfangsefni rannsókna minna um langa hríð. Þar sem hér er um nýjung að ræða í starfsemi Háskóla Íslands verður ögrandi verkefni að þróa starfið í samvinnu við heimamenn á Vestfjörðum og starfsfólk Háskóla Íslands."

 

,,Ég mun áfram sinna rannsóknar- og kennsluskyldum mínum við háskólann en hlutverk mitt verður einnig að efla tengsl skólans og háskólasetra á Vestfjörðum, auk þess að styðja eins og unnt er við það ágæta starf sem unnið hefur verið við sumarskóla og ráðstefnuhald á Hrafnseyri. Ég hlakka til þessa samstarfs sem ég trúi að verði lyftistöng bæði fyrir fræðslu- og rannsóknarstarf á Vestfjörðum og fyrir Háskóla Íslands," segir Guðmundur Hálfdanarson.

 

Guðmundur segir að hans fyrsta verk í nýju starfi verði að fara vestur og gera áætlun í samráði við heimamenn um hvernig starfinu verður háttað næstu árin. Háskóli Íslands starfar á öllum helstu fræðasviðum og sér Guðmundur fyrir sér að hann muni beita sér fyrir aðkomu þeirra að þeim rannsóknum og fræðastarfi sem unnið verði að fyrir vestan. Verkefnin muni ekki einungis tengjast sagnfræði heldur mjög fjölbreyttum sviðum, s.s. ferðaþjónustu, umhverfismálum, sjávarútvegsfræðum og líffræði.

 

Alþingi samþykkti samhljóða á sérstökum hátíðarþingfundi 15. júní 2011 þingsályktunartillögu um að stofna prófessorsstöðuna, en í fyrra voru 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Auk þess að berjast ötullega fyrir sjálfstæði þjóðarinnar var Jón baráttumaður fyrir stofnun háskóla á Íslandi og var Háskóli Íslands stofnaður á aldarafmæli hans.

 

Fram kemur í þingsályktunartillögu Alþingis að starfsskyldur þess sem gegni prófessorsstöðunni verði meðal annars við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum en einnig hafi hann samstarf við Háskólasetur Vestfjarða. Meðal verkefna prófessorsins sé að standa árlega að ráðstefnum og námskeiði í sumarháskóla á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, Hrafnseyri, með innlendum og erlendum kennurum og fyrirlesurum.

 

Við skipun í embættið átti jafnframt að hafa hliðsjón af því hvernig áætlun umsækjenda um rannsóknastarf og kennslu tengdist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efldi þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

 

Embættið var auglýst til umsóknar haustið 2011 og tekur Guðmundur Hálfdanarson við starfinu 1. apríl nk. Hann hefur um árabil sinnt rannsóknum á íslenska þjóðríkinu, sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og Jóni Sigurðssyni og ber ritaskrá hans þess glöggt vitni.

 

Guðmundur Hálfdanarson lauk cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1982, MA-prófi í sagnfræði frá Cornell-háskóla árið 1985 og doktorsprófi frá sama skóla árið 1991. Sama ár tók hann við stöðu lektors í sagnfræði við Háskóla Íslands og var hann árið 2000 skipaður prófessor við skólann.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is