Ræddu aðgerðir til að jafna hlut kynja í sveitarstjórnum

Greinargerð starfshóps um aðgerðir til að jafna betur stöðu kynjanna í sveitarstjórnum var rædd í liðinni viku á fundi sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra boðaði fulltrúa stjórnmálaflokkanna á. Fram kom stuðningur við að grípa til aðgerða fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar vorið 2010.

 

Kristján L. Möller fór í upphafi yfir nokkrar tillögur starfshópsins sem snúast meðal annars um að hvetja forystufólk stjórnmálaflokkanna til að gæta jafnræðis meðal kynja í efstu sætum framboðslista, að skipuleggja kynningarstarf og átak fyrir því að konur til jafns við karla taki þátt í störfum sveitarstjórna og fleira. Einnig er hvatt til samráðs við félags- og tryggingamálaráðuneytið og Jafnréttisstofu.

 

Á fundinum var bent á nauðsyn þess að formenn stjórnmálaflokka sammæltust um aðgerðir og hvatningu fyrir jöfnum hlut kynja í sveitarstjórnum til dæmis með auglýsingu eða blaðagrein sem allir skrifuðu undir. Þá var bent á að brýnt væri að starfsumhverfi bæði innan stjórnmálaflokka og í sveitarstjórnum skipti miklu máli þegar rætt væri um að jafna hlut karla og kvenna til þátttöku í stjórnmálastarfi. Einnig var hvatt til þess að stjórnmálaflokkar yrðu brýndir til dáða á næstu vikum til að unnt væri að koma á meiri jöfnuði strax við næstu sveitarstjórnarkosningar.

 

Næsta skref er að boða fljótlega til samráðsfundar með forystu stjórnmálaflokka og fleiri aðilum.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is