Rafhlöðukyndillinn! Átaksverkefni 10. bekkjar í Patreksskóla

Nemendur 10. bekkjar í Patreksskóla hafa undanfarið unnið í eðlisfræði að átaksverkefninu ,,Rafhlöðukyndillinn¨ með það að markmiði að fá alla bæjarbúa, einstaklinga og fyrirtæki til að skila notuðum rafhlöðum og rafhlöðuhnöppum í endurvinnslu til verndar náttúrunni, en rafhlöður innihalda hættulegar sýrur og þungamálma.

Krakkarnir eru búnir að halda kynningu í öllum bekkjum Patreksskóla, heimsækja Ásthildi bæjarstjóra, fyrirtæki og og verslanir og gefa hvatningarkort sem þau bjuggu sjálf til sem hafa verið hengd upp um allan skólann og á viðkomandi stöðum en þar má m.a. sjá yfirkrossaða ruslatunnumerkið, táknið sem þýðir: ,,Ekki henda í ruslið.¨

Alls staðar fengu þau frábærar viðtökur og bæjarbúar geta nú líka skilað rafhlöðum í Albínu, Fjölval og Loga auk Sorpu.

Verkefnið heitir ,,Rafhlöðukyndillinn,¨ því markmiðið er að kyndillinn fari milli skóla á landinu og er myndin fyrir ofan af formlegri afhendingu til nemenda í Bíldudalsskóla, sem munu svo koma kyndlinum áfram til annars skóla o.s.frv.  Fylgst verður svo með ferðum kyndilsins og merkt inná Íslandskort.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is