Reglubundnar rútuferðir milli Ísafjarðar og Brjánslækjar/Patreksfjarðar

Nýjungar í almenningssamgöngum á Vestfjörðum
- Ferjurúta milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar allt árið
- Reglubundnar rútuferðir milli Ísafjarðar og Brjánslækjar/Patreksfjarðar

Ferðaþjónusta Vestfjarða ehf. (Westfjords Adventures) á Patreksfirði hefur gert samning við Fjórðungssamband Vestfirðinga um rútuakstur á sérleyfinu Patreksfjörður – Brjánslækur – Ísafjörður. Fyrstu áætlunarferðirnar verða farnar nk. mánudag 25. ágúst 2014. Leiðin verður tvískipt, annars vegar milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar, hins vegar milli Ísafjarðar og Brjánslækjar. Westfjords Adventures mun sinna þessu verkefni í samstarfi við Vestfjarðaleið ehf. og Sæferðir hf.

Ferðir milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar verða daglega allt árið í tengslum við áætlun ferjunnar Baldurs yfir Breiðafjörð. Hér er um nýjung að ræða og bætt úr brýnni þörf. Með þessu gefst íbúum og ferðamönnum á sunnanverðum Vestfjörðum færi á að tengjast ferðum Baldurs og þar með almenningssamgöngukerfi Strætó í Stykkishólmi til Reykjavíkur og um land allt.

Ferðir milli Ísafjarðar og Brjánslækjar verða þrisvar í viku til 15. september nk., þ.e. á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Gert er ráð fyrir að þær muni hefjast að nýju 15. maí 2015 og verði daglegar ferðir í tengslum við sumaráætlun Baldurs frá 6. júní – 25. ágúst 2015. Með þessu gefst íbúum og ferðamönnum á norðanverðum Vestfjörðum einnig færi á að tengjast ferðum Baldurs og þar með almenningssamgöngukerfi Strætó í Stykkishólmi til Reykjavíkur og um land allt. Þetta er veruleg þjónustuaukning frá því sem verið hefur undanfarin ár. Með þessu fyrirkomulagi er einnig bætt úr brýnni þörf, en engar almenningssamgöngur hafa verið í sumar milli Ísafjarðar og Brjánslækjar-Patreksfjarðar.

Í sérstöku fylgiblaði koma fram nánari upplýsingar um tímaáætlanir og verð.

Frá Patreksfirði verður ekið frá Ferðamannamiðstöðinni og N1. Frá Ísafirði verður ekið frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna og biðstöðinni við Pollgötu, með viðkomu hjá N1 á Þingeyri.

Stakt fargjald milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar verður kr. 3.800 og stakt fargjald milli Ísafjarðar og Brjánslækjar verður kr. 8.400. Hægt er að kaupa 4-miða kort, sem lækkar fargjaldið í kr. 3.000 milli Patreksfjarðar og Brjánslækjar, og í kr. 6.600 milli Ísafjarðar og Brjánslækjar. 4-miða kortin verða persónubundin tilteknum einstaklingum og hagstæð þeim, sem ferðast oft, t.d. íbúum á Vestfjörðum og skyldmennum þeirra. Að auki verður lægra verð fyrir 70 ára og eldri, börn að 12 ára aldri, og ungmenni 12-18 ára. Nánari upplýsingar verður að finna á www.wa.is og í síma 456 5006.

Hægt verður að kaupa miða hjá bílstjórum, hjá Westfjords Adventures og Sæferðum.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is