Sameining tveggja sveitarfélaga samþykkt

Síðastliðinn laugardag, 20. mars, fór fram atkvæðagreiðsla í Hörgárbyggð og Arnarneshreppi um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga. Sameiningin var samþykkt í báðum sveitarfélögunum og var niðurstaða atkvæðagreiðslunnar þessi í hvoru sveitarfélagi fyrir sig:

 

Í Hörgárbyggð greiddu 149 atkvæði með sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar og 12 greiddu atkvæði gegn henni. Einn seðill var auður. Með öðrum orðum voru 92,0% þeirra sem kusu fylgjandi sameiningu, en 7,4% andvíg. 0,6% skilaði auðu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 92,5% fylgjandi og 7,5% andvíg sameiningu.

 

Í Arnarneshreppi greiddu 57 atkvæði með sameiningunni og 40 greiddu atkvæði gegn henni. Þrír seðlar voru auðir. Þar voru hlutfallstölurnar þessar: 57,0% þeirra sem kusu voru fylgjandi sameiningu, en 40,0% andvíg. 3,0% skilaði auðu. Af þeim sem tóku afstöðu voru 58,8% fylgjandi og 41,2% andvíg sameiningu.

 

Á kjörskrá í Hörgárbyggð voru 309, þar af kusu 162, sem er 52,4% kjörsókn. Á kjörskrá í Arnarneshreppi voru 126, þar af kusu 100, sem er 79,4% kjörsókn.

 

Sameining sveitarfélaganna mun taka gildi við upphaf nýs kjörtímabils sveitarstjórna, sem er 12. júní nk. Í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí nk. verður því kosið til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is