Sérfræðingur Þjóðskjalasafns í heimsókn

Helgi Hjálmtýsson, Ragna Jónsdóttir og Helga Jóna Eiríksdóttir
Helgi Hjálmtýsson, Ragna Jónsdóttir og Helga Jóna Eiríksdóttir
Helga Jóna Eiríksdóttir, sérfræðingur á Þjóðskjalasafni, heimsótti skráningarstöð Vesturbyggðar í vikunni.

 

Skráningarstöð Vesturbyggðar hefur verið starfandi í skrifstofuhúsnæði Skrímslaseturs á Bíldudal síðan í sumar. Unnið hefur verið að skráningu fundargerðabóka og annarra opinberra gagna sveitarfélagsins og þeirra hreppa sem voru undarfari þess.

 

Nýlega færði einnig Sólveig Aradóttir skráningarstöðinni safn sem faðir hennar Ari Ívarson hefur varðveitt. Í safninu er að finna ýmis gögn, bækur og bréf frá Rauðasandshreppi, Kaupfélagi Rauðsendinga og Pöntunarfjelaginu Patreki. Helga Jóna leiðbeindi starfsmönnum skráningarstöðvarinnar þeim Rögnu Jónsdóttur, skráningarfulltrúa, og Helga Hjálmtýssyni, verkefnisstjóra, við skráningu gagnanna eftir forskrift Þjóðskjalasafns Íslands.

 

Einnig var til gamans farið í rannsóknarleiðangur á loft Kaupfélagshúsins á Bíldudal. Þar reyndust vera ýmis gögn frá Suðurfjarðarhreppi, Kaupfélagi Arnfirðinga, Fiskvinnslunni á Bíldudal og fleiri fyrirtækjum sem verið hafa á Bíldudal. Við fyrstu sýn virtust gögnin á Kaupfélagsloftinu aðallega vera reikningar og bókhaldsgögn. Ætlunin er með tíð og tíma að safna þessum gögnum einnig saman og skrá og varðveita.

 

Í athugun á vegum Vesturbyggðar og annarra sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum er að stofna héraðsskjalasafn. Ef af því verður munu þessi gögn verða varðveitt þar. Þeim sem vita eða telja sig vita af opinberum gögnum eða einkagögnum sem ættu heima á slíku safni er velkomið að upplýsa starfsfólk skráningarstöðvarinnar um slík söfn í síma 891 8477 eða í netfang helgihjal@gmail.com eða ragna@vesturbyggd.is.

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is