Setjum skólamál í öndvegi

Nú er hafin vinna við skólastefnu Vesturbyggðar. Skólastefna er eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélag. Í lögum um leikskóla nr. 90/2008 og grunnskóla nr. 91/2008 er sveitarfélögum lögð sú skylda á herðar að setja almenna stefnu um leik- og grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess. Vesturbyggð hefur fengið Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands til þess að ritstýra og veita ráðgjöf við vinnuna.

Vinnan er lýðræðisleg, byggist á hópavinnu allra þeirra sem áhuga hafa á verkefninu; nemendur, starfsfólk skóla, foreldrar og aðrir þeir sem eru áhugasamir um góða leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla í sveitarfélaginu. Allar skoðanir, ábendingar og viðhorf eiga rétt á sér og miklu skiptir að allir taki þátt. Fundaraðirnar með Ingvari verða tvær, annars vegar sú sem nú stendur yfir og síðan mun hann heimsækja Vesturbyggð aftur í lok mars.

Undanfarið hefur árangur íslenskra grunnskólabarna verið mikið í umræðunni. PISA könnunin kom illa út og ískyggilegt er að sjá hversu dapur námsárangur barna er á landsbyggðinni og drengir virðast standa sérstaklega illa. Samræmd próf staðfesta þetta og er árangur barna á Vestfjörðum ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Þetta er graflvarlegt mál og foreldrar, skólar og sveitarfélög þurfa að bregðast við. Vinna við skólastefnu, endurbætur á skólahúsnæði og tækjakosti, fræðslugreiningu ófaglærðra og meiri stuðningi sveitarstjórnar við skólastarf eru m.a. viðbrögð Vesturbyggðar við þessum niðurstöðum. Það er dagsljóst að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum þurfa að taka fræðslumál föstum tökum. Það á ekki að vera regla að nemendur á Vestfjörðum séu ávallt meðal þeirra lægstu þegar kemur að námsárangri. Þessu verður að breyta og þessi mál eiga vera í forgangi í umræðunni á fjórðungsvísu. Ef til vill þurfum við að ræða nokkrum mínútum skemur um samgöngumál og eyða því í menntamál!

Ungt fólk sem kannar búsetukosti í dag gerir kröfu til gæða í skólastarfi og vilja byggja upp heimili sitt þar sem góðir skólar og þjónusta við barnafólk er. Það geta allir sameinast um að vilja góða skóla en við þurfum að leggja okkar af mörkum til þess að skólarnir okkar verði betri og betri. Sterk samfélög og sterkir skólar haldast í hendur. Hér ætlum við okkur að byggja sterk samfélög með fjölbreyttu íbúamynstri. Skólarnir eitt mikilvægasta verkfærið í slíkri uppbyggingu.

Vesturbyggð rekur 5 skóla. Þrjár deildir í Grunnskólum Vesturbyggðar, tvo leikskóla og tónlistarskóla. Tæplega helmingur skatttekna renna til fræðslumála í sveitarfélaginu og um 15% skatttekna renna til æskulýðs og íþróttamála (íþróttamiðstöðvar, félagsmiðstöðvar, vinnuskóli). Sveitarfélagið hefur ekki hækkað leikskólagjöld 3 ár í röð og eru leikskólagjöld mjög hagstæð í Vesturbyggð. Sveitarfélagið býður börnum vistum frá 14 mánaða aldri sem mjög fá sveitarfélög gera og lengda viðveru í Patreksskóla. Barnmargar fjölskyldur njóta ríflegra afsláttarkjara.

Lág gjaldskrá byggir hins vegar ekki upp góða skóla en það er góð þjónusta við íbúa. Góða skóla byggjum við upp í sameiningu með því að vera metnaðarfullt samfélag og setja markmiðin hátt og styðja við skólana og börnin okkar. Sameinumst um að láta þann draum verða að veruleika og setjum fræðslumálin í forgang.

Ég hvet íbúa til þess að taka þátt í vinnunni sem framundan er og vera virk í umræðunni.

 

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri

Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is