Silver Explorer á Bíldudal

Silver Explorer
Silver Explorer
Skemmtiferðaskipið Silver Explorer var væntanlegt til Bíldudals kl. 13 í dag.

 

Um er að ræða fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Vesturbyggðar. Með skipinu koma 117 farþegar og 121 áhafnarmeðlimur. Skipið stoppar í sex klukkustundir og munu farþegarnir skoða Bíldudal og næsta nágrenni á meðan á dvöl þeirra stendur. Skipið skipti um nafn í apríl en hét áður Prince Albert II.

 

Mikil undirbúningsvinna liggur að baki komu skipsins. „Við höfum verið að vinna að komum skemmtiferðaskipa frá árinu 2008. Vesturbyggð var aðili að Cruise Iceland, félagi sem heldur utan um komur skemmtiferðaskipa til landsins, en eftir að verkefnið kom inn á mitt borð fór ég að sækja fundi hjá félaginu. Ég sett mig síðan í samband við ferðaskrifstofuna Iceland Travel, sem kynnti síðan Vesturbyggð sem nýjan og spennandi áfangastað. Í gegnum þau var fyrsta skipið bókað," segir Guðrún Eggertsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða á Patreksfirði.

 

Guðrún segir það skipta höfuðmáli fyrir framhaldið að vel takist til í dag. Hún tekur þó fram að Vesturbyggð hafi hvorki aðstöðu né innviði til að taka á móti mjög stórum skipum líkt og Ísafjarðarbær gerir. „Við stefnum frekar að því að fá minni skip til okkar þar sem farþegafjöldi er hámark 500 farþegar," segir Guðrún. Aðal aðdráttarafl fyrir farþega skipsins er safn Samúels Jónssonar í Selárdal og því leggst skipið að bryggju á Bíldudal en að sögn Guðrúnar getur höfnin þar vel tekið á móti svo stóru skipi.

 

Guðrún verður fjarri góðu gamni í dag þar sem hún er í barneignarfríi, þó að hún vonist til að fá að taka eitthvað þátt í móttökunni. Það er því Valgeir Ingólfsson, hjá Atvinnuþróunarfélaginu sem leysir hana af og sér um móttöku farþegana. „Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar og hafnarstjóri, tekur á móti gestunum ásamt um fimm bæjarfulltrúum og slökkviliðsstjóra. Þau munu einnig fara um borð í skipið og heilsa upp á áhöfnina en hún er í svona skipum álíka stór og sjálfur farþegafjöldinn," segir Valgeir. „Við förum með hópinn út í Selárdal þar sem Gerhard Köning tekur á móti hópnum og veitir leiðsögn um Listasafn Samúels Jónssonar, en Gerhard hefur unnið að endurreisn safnsins. Þá mun veitingastaðurinn Vegamót, Skrímslasafnið og Jón Þórðarson hjá Eagle Shore Travels sjá um móttökur. Einnig mun Jón Kr. vera með opið í Melódíum minninganna," segir Valgeir.

 

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is