Skjaldborgarhátíðin tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Eyrarrósin 2010
Eyrarrósin 2010
Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði hefur verið tilnefnd til Eyrarrósarinnar, sem er sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Eyrarrósin verður afhent á Bessastöðum næsta mánudag kl. 16 og er það í sjötta sinn sem viðurkenningin er veitt.

Þrjú verkefni hafa verið tilnefnd úr hópi umsækjenda;
  • tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði eystra,
  • Eiríksstaðir í Haukadal auk
  • Skjaldborgar.

Það verður tilkynnt við athöfnina hvert framangreindra verkefna hlýtur Eyrarrósina í ár; fjárstyrk að upphæð 1,5 milljón króna og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur til eignar. Hin verkefnin sem tilnefnd eru hljóta 200 þúsund króna framlag. Öll verkefnin hljóta að auki flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Verðlaunin veitir Dorrit Moussaieff forsetafrú, sem jafnframt er verndari Eyrarrósarinnar. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra flytur ávarp við athöfnina og tónlistarmennirnir Sigríður Thorlacius og Högni Egilsson flytja tónlist.

 

Í umsögn valnefndar segir um Skjaldborg: „Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildarmynda, er haldin árlega í kvikmyndahúsinu Skjaldborg á Patreksfirði. Á Skjaldborg fá kvikmyndaáhugamenn aðgang að fjölbreyttri flóru heimildarmynda þar sem hið smáa, stóra, skrýtna og ódýra er lagt að jöfnu. Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og sýnt er við bestu aðstæður í nýuppgerðu kvikmyndahúsi bæjarins, auk þess sem boðið er upp á umræður og margvíslega viðburði í bæjarfélaginu á meðan á hátíðinni stendur. Gildi Skjaldborgar fyrir menningartengda ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum er óumdeilt og hefur hátíðinni tekist að vekja áhuga ungra kvikmyndagerðarmanna víðsvegar að af landinu á byggðarlaginu. Að frumkvæði aðstandenda Skjaldborgar er Patreksfjörður því orðinn höfuðborg heimildarmyndarinnar á Íslandi."

Skrifaðu athugasemd:Til baka
Vesturbyggð - Kt. 510694-2369 - Aðalstræti 63 - 450 Patreksfirði - Sími: 450 2300 - Fax: 456 1142 - Netfang: vesturbyggd@vesturbyggd.is